GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, september 13, 2004

Kynlíf a la Móses

Ég var að átta mig á að ég hef ekki skrifað trúarlegan pistil í þó nokkurn tíma og fannst rétt að bæta úr því.

Flest höfum við lesið boðorðin tíu og flestir gætu tilgreint að minnsta kosti sjö eða átta þeirra án mikilla vandræða. Hins vegar vita ekki allir að Móses fékk mun ítarlegri reglur til þess að færa þjóð sinni en bara þessar tíu einföldu sem allir hafa heyrt af. Ég las nokkrar síður úr Þriðju Mósebók, eins og góðum Kristni sæmir og vil nú deila þeirri lesningu með kristnum bræðrum mínum og systrum sem vilja lifa góðu og guðræknu líferni.

Augu mín stöðvuðust að sjálfsögðu á kafla sem ber yfirskriftina “Kynlíf” (18. kapitula Þriðju Mósebókar). Ég renndi yfir hann og hafði nokkuð gaman af. Þar er löng upptalning á skyldmennum og tengdum aðilum sem ekki er talið eðlilegt að maður hafi kynferðislegt samneyti með og fleira. Ég taldi þennan kafla reyndar ekki nógu athyglisverðan til þess að skrifa pistil um hann, að minnsta kosti ekki fyrr en ég las 20. kapitula sömu bókar sem ber yfirskriftina “Afbrot dauða verð”. Sniðmengi þess kafla og kynlífskaflans var gríðarlega stórt, mér til nokkurrar undrunar.

Auðvitað er það dauðasök að sofa með nokkrum náskyldum ættingja, og eða maka einhvers náskylds ættingja. Slíkt þarf ekki að taka fram. Þá er að sjálfsögðu allur hommaskapur dauðasynd eða eins og guðinn okkar góði sagði í 13. versi: “Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.” Guð virðist ekki hafa neitt á móti lesbíum. Hann sagði Móse alla vega ekki frá því. Guð er kannski svona upplýstur og víðsýnn. 14. versið takmarkar möguleika á samanburði á bólgetu mismunandi kynslóða: “Og taki maður bæði konu og móður hennar, þá er það óhæfa. Skal brenna hann í eldi ásamt þeim, svo að eigi gangist við óhæfa meðal yðar.” Þetta er greinilega slík synd að ákveðin aftökuaðferð er nauðsynleg til þess að losa samfélagið við syndina, dauði einn og sér er ekki nægjandi. Dýrakynlíf er tæklað í 15. og 16. versi: “Og eigi maður samlag við skepnu, þá skal hann líflátinn verða, og skepnuna skuluð þér drepa. Og ef kona kemur nærri einhverri skepnu til samræðis við hana, þá skalt þú deyða konuna og skepnuna. Þau skulu líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.” Fyrir konur virðist það vera nóg að nálgast dýrið í annarlegum tilgangi til þess að eiga dauðann skilinn. Það er spurning hvernig sönnunarbyrðin er ef konan nálgast dýr en kveðst eingöngu hafa kristilegan tilgang í huga. Svo er nú líka svolítið ósanngjarnt að refsa skynlausri skepnunni fyrir sína þátttöku í syndinni, hún veit jú ekki betur. Einnig skal bent á eina kynlífssyndina enn sem við fyrstu sín virðist kannski saklaus en krefst við nánari athugun dauðarefsingar, 18. vers: “Leggist maður með konu, sem hefir tíðir, og berar blygðan hennar – hefir beran gjört brunn hennar og hún hefir sjálf berað brunn blóðs síns –, þá skulu þau bæði upprætt verða úr þjóð sinni.”

Þá vil ég vara Halla á RÚV og hina veðurfræðingana sem dirfast að reyna að spá fyrir um veðrið. Það er aldrei að vita nema Gunnar í krossinum mæti og reyni að framfylgja 27. versinu: “Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim.”

Já, það er alltaf gott að rifja upp hin kristnu gildi sem er svo mikilvægt að hafa í hávegum og gleyma ekki. Svo á víst að fara að gefa út glænýja þýðingu á biblíunni, þá fyrstu í næstum 100 ár. Ef einhver er að leita að afmælis- eða jólagjöf handa mér þá er þarna komin úrvalshugmynd.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com