GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

sunnudagur, september 19, 2004

Grunnskólanemar! Til hamingju!

Í dag hefst skemmtilegasti hluti skólagöngunnar fyrir marga, fyrsta kennaraverkfallið. Fyrir grunnskólanema hljómar orðið “kennaraverkfall” eins og “ókeypis bjór” fyrir háskólanema, maður trúir því ekki fyrr en maður sér það og reynir að svolgra eins miklu í sig og mögulegt er. Tímasetning þessa verkfalls er örlítið leiðinleg, skólinn er rétt nýbyrjaður og fæstir orðnir mjög þreyttir á honum. Það er samt eins og þegar ókeypis bjórinn er volgur, maður kvartar eilítið en heldur svo áfram að drekka, sáttur við sitt.

Ég man eftir einu verkfalli á minni skólagöngu. Það var í níunda bekk og miðað við tíðni kennaraverkfalla hlýt ég eiginlega að hafa lent í öðru verkfalli fyrr á skólagöngu minni en hvað um það? Eins og áður segir var verkfallið mitt í níunda bekk, bekk sem er þekktur fyrir að vera einhvers konar millibilsbekkur sem enginn stressar sig yfir. Maður tekur út gagnfræðaskólasjokkið í áttunda bekk og svo eru samræmdu prófin ekki fyrr en eftir tíunda bekk. Tímasetning þess verkfalls var líka fullkomin, frá byrjun febrúar til miðs marsmánaðar. Á vorönn er maður alltaf lúnari en á haustönn og verkfallið klauf vorönnina glæsilega og gaf manni séns á að slappa aðeins af án þess þó að valda einhverju sérstöku stressi í kringum prófin. Versti hluti verkfallsins var kvöldið sem ég hlustaði á fréttir af samningaviðræðum í beinni sem lauk með samningum. 6 vikna verkfalli var lokið.

Sem verkfallsþegi á sínum tíma hugsaði maður lítið um neikvæð áhrif svona verkfalls en í dag sitja tæplega 50.000 Íslendingar heima vegna verkfallsins, 43.000 skólabörn og 4.500 kennarar. Kennarar búa reyndar að feitum verkfallssjóði en það er eflaust misjafnt hvaða úrræði foreldrar hafa til þess að geyma blessuð börnin yfir daginn svo að kannski sitja einhverjir foreldrar heima líka.

Þá er það ótrúlegt hvað forystu Kennarasambandsins hefur tekist vel upp með að eyðileggja málstað kennara og samúð. Forysta KÍ sakaði foreldra og fyrirtæki um siðleysi vegna áforma um að að koma upp tímabundinni barnagæslu. Hún vill greinilega bara fá eitt allsherjarsamúðarverkfall hjá þjóðinni. Forystan hefur unnið það afrek að snúa því sem næst öllum atvinnurekendum og foreldrum upp á móti kennurum, þessari menntuðustu láglaunastétt landsins. Til hamingju, KÍ. Ég held að Eiríkur formaður sé að verða kominn á síðasta söludag.

Ég óska skólabörnum langs og ánægjulegs verkfalls. Annars óska ég nú kennurum líka feitrar launahækkunar. Ég vil endilega að kennarar verði komnir með mannsæmandi laun þegar ég fer að henda eigin krökkum inn í menntakerfið. Ég man eftir að hafa haft kennara sem var ruslatæknir (öskukarl) að aukastarfi til þess að drýgja kennaratekjurnar. Ég óska börnunum mínum einhvers betra.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com