GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, febrúar 16, 2004

Góð ákvörðun?

Laugardagskvöldinu síðastliðnu varði ég í afmælisteiti einni og naut ég hennar bara ágætlega. Veru minni í teitinni lauk þegar ég og tveir aðrir pistlahöfundar Skítsins ákváðum að rétt væri að kanna hvað miðbær Reykjavíkur hefði upp á að bjóða. Sú ákvörðun var tekin um kl. 2. Við þurftum að sjálfsögðu að bíða nokkuð eftir leigubíl eins og vaninn er á þessum tíma svo að við vorum ekki komnir niður í bæ fyrr en rúmlega hálf þrjú. Þar var allt eins og við mátti búast, brjálaðar raðir á alla sómasamlega staði og eftir að hafa týnt öðrum samferðamanni mínum fórum við hinir tveir fljótlega heim. Við vorum nokkuð sammála um að það hefði verið slæm ákvörðun að fara niður í bæ. Við vorum hins vegar allsendis ósammála um hvers vegna ákvörðunin hafði verið slæm. Hann vildi meina að það væri vegna þess að bæjarferðin reyndist misheppnuð á meðan ég hélt því fram að hún ákvörðunin hefði verið slæm þar sem við hefðum átt að geta sagt okkur að bæjarferðin yrði misheppnuð. Ég stend nefnilega fastur á því að gæði ákvarðanar séu alfarið óháð afleiðingum hennar.

Tökum mjög einfalt dæmi. Ímyndum okkur að einhver greindarskertur einstaklingur bjóði upp á happdrætti þar sem 90% líkur eru á því að tvöfalda það sem lagt er undir en 10% líkur á að tapa öllu. Ég tel það mjög góða ákvörðun að taka þátt í þessu happdrætti enda væntigildi þess 90% hagnaður! Ég kaupi því miða en lendi í þeirri ógæfu að tapa þrátt fyrir litlar líkur á tapi. Ef ég álykta nú að þar sem ég tapaði hafi ég tekið slæma ákvörðun þegar ég ákvað að kaupa miða get ég ómögulega tekið þátt aftur í happdrættinu þar sem væri þá að taka sömu ákvörðun og áður sem hlýtur þar af leiðandi að vera slæm. Því hætti ég þáttöku í happdrættinu og kem í veg fyrir að ég geti grætt peninga þangað til áðurnefndur greindarskertlingur fer á hausinn. Þetta finnst mér ekki skynsamlegt. Því verð ég að halda mig við það mat mitt að ákvörðunin um að taka þátt í happdrættinu hafi verið góð þrátt fyrir að ég hafi lent í því að tapa.

Örlítið flóknara dæmi: Sem einhleypur maður hef ég tilhneigingu til þess að reyna við stelpur. Oft felur það í sér fjárútgjöld í formi vökvunarkostnaðar og annarra tilfallandi gjalda. Þegar ég reyni við stelpu eru einhverjar líkur á að það takist og einhverjar á að það mistakist (af virðingarskyni við sjálfan mig ætla ég ekki að reyna að meta þær líkur). Augljóslega mistekst viðreynslan stundum og ég stend upp einhverjum krónum fátækari en ég sé sjaldnast eftir því að hafa reynt enda tók ég góða ákvörðun á grundvelli mats á líkum á árangri.

Eina tilfellið sem afleiðingar ákvörðunar geta haft áhrif á mat mitt á gæðum hennar er þegar afleiðingarnar leiða í ljós að ég gæti hafa mismetið líkur á árangri. Í því tilfelli var ákvörðunin mögulega byggð á röngum forsendum og gat því ekki verið eins góð og ef forsendurnar hefðu verið rétt metnar.

Því vil ég endilega hvetja fólk til þess að hugsa sig tvisvar um áður en það fer að sjá eftir einhverju sem það gerir. Ef eftirsjáin kemur upp í hugann, hugsaðu þá um hvort leiðindaafleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar eða ekki. Ef ómögulegt var að sjá fyrir að væntanlega yrði afleiðingarnar slæmar er ekki, með neinni skynsemi, hægt að vera reiður út í sjálfan sig, þetta var bara óheppni. Ef leiðindin voru fyrirsjáanleg má hins vegar alveg skalla vegg, slíta rassahár eða refsa sér á einhvern annan hátt fyrir slæma ákvörðun.

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com