GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, febrúar 23, 2004

Framkvæmdarstjóri ástarmála óskast

Hér með auglýsist eftir umsækjendum í stöðu framkvæmdarstjóra ástarmála gagnkynhneigðs karlkyns einstaklings. Einstaklingurinn sem um ræðir er þolanlega viðkunnanlegur og vel meinandi en þarfnast stjórnunar á umræddu sviði.

Starfslýsing

Hlutverk framkvæmdarstjóra felst í því að stýra ástarmálum einstaklingsins með það að markmiði að styðja við framþróun ástarlífsins en koma á sama tíma í veg fyrir álitshnekki og viðhalda góðu orðspori einstaklingsins. Í þessu felst að koma í veg fyrir slæmar ákvarðanir, teknar undir ölvun, stýra aðflugi í samböndum og útbúa flóttaáætlanir. Framkvæmdarstjóra er ekki ætlað að stofna til sambandsins eða á einhvern hátt koma einstaklingnum á framfæri heldur stýra þróun sambands eftir að frumsamband hefur náðst.

Hæfnikröfur

Umsækjendur mega vera hvort sem er karlkyns eða kvenkyns en gagnkynhneigð umsækjanda er talin ófrávíkjanlegt forskilyrði fyrir starfið. Umsækjendur skulu umfram allt hafa góða félagslega hæfni, hafa nokkra reynslu af málaflokknum og vera af góðu þekktir af þeirri reynslu sinni. Sér í lagi skulu karlkyns umsækjendur ekki hafa skilið eftir sig sviðna jörð í samböndum sínum nema mögulega aðeins snemma á ferlinum og kvenkyns umsækjendur mega ekki vera sækóbitches. Grunnþekking á gæðastjórnun er æskileg en verður ekki sett sem forkrafa ef umsækjandi getur sýnt fram á mikla hæfni að öðru leyti. Þrátt fyrir að starfið feli í sér þó nokkra stjórnun mega umsækjendur ekki vera haldnir stjórnunaráráttu. Þá eru velviljaðir einstaklingar líklegri til að hreppa starfið en aðrir.

Reynsla

Umsækjendur skulu hafa a.m.k. 5 ára reynslu sem virkir þátttakendur á hinum gagnkynhneigða markaði og hafa að baki 3 eða fleiri sambönd sem spanna yfir meira en tveggja mánuða tímabil.

Laun

Laun eru eftir samkomulagi en verða væntanlega að mestu leyti í formi árangurstengds klapps á bakið.


Að lokum skal minnst á það að æskilegt er að umsækjendur sjái leiðir til þess að bæta fyrir þann skaða sem auglýsing þessi veldur.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com