Klósettpistill #7? eða mambo # 5? maður spyr sig.
Lengi hafa klósett verið skítsmönnum hugleikin. Hafa fjölmargir lortar litið dagsins ljós í kjölfar ævintýralegra klósettferða í mismunandi löndum og við misjafnar aðstæður. Á klósettum og þá sérstaklega almenningsklósettum er alltaf hægt að finna efni til umfjöllunar í léttum pistli. Ætla ég í þetta skiptið að fara yfir þær aðferðir sem menn hafa til að þerra hendur eftir handþvott á klósetti.
Fyrst kemur smá "dilemma” sem ég bið lesendur um að leysa. Ég mun upplýsa hvernig ég brást við í næsta pistli.
Frásögn hefst
Ég lenti í heldur erfiðum aðstæðum á klósetti á Ítalíu nú fyrr í vetur. Klósettið var á hamborgarastað og ég var búinn að panta mér ólgandi kvartpundara með öllu tilheyrandi eftir að hafa beðið í röðinni í tæpar 10 mín. Eftir smá átök og afturkreisting hafði ég, að herramanna sið, plantað einum dökkbrúnum og gljáandi í kant eins klósettsins og gekk alsæll út úr básnum tilbúinn til handþvottar. Nema hvað, er ég skrúfa frá vatninu kemur bara brúnt vatn út. Nú voru góð ráð dýr. Ekki ætlaði ég að smakka vatnið til að sannreyna ágæti þess og því spurði ég mig hvort maður ætti nokkuð að þvo sér um hendur. Þetta hefði jú vel getað verið “grófhreinsað” skólpvatn. (Þessi Ítalir eru til alls líklegir). Frásögn lýkur
En hvað hefðu þið, lesendur góðir, gert í þessari stöðu?
a) Þvegið ykkur um hendur með brúna vatninu og treyst því að þetta væri nægilega hreint vatn.
b) Spýtt í lófana og notað hrákann sem sápu (pæling).
c) Sleppt því að þvo hendur.
d) Eitthvað annað
Athuga ber að hamborgarinn er á leiðinni á borðið, biðröð er 10 mín og þessi ákvörðun gæti kostað þig heilsuna.
En umfjöllunarefni þessa pistils átti að vera þerrun handa eftir handþvott á almenningsklósetti. Þær aðferðir sem manni standa yfirleitt til boða eru ekki margar. Fyrst skal nefna handklæðið sem manni ber að “draga hreint fyrir næsta mann”. Ég hef aldrei séð slíkt tæki án þess að saursósa tuskan lafi niður úr tækinu og tækið líti út fyrir að vera bilað. En ef tuskan lafir ekki og maður ætlar draga sér hreint, þá er það alltaf sama sagan: tuskan er föst og tæki er bilað. Þó eru undantekningar sem sanna regluna en þær eru fátíðari en fjögurra blaða smárar.
Annað tæki sem er út í hött er þurrkarinn. Þær eru ófáar athugasemdirnar sem ég vil koma á framfæri til þess hálvita sem fann upp þetta drasl. Reyndar er pælingin ágæt en virðist með öllu óframkvæmanleg með fullnægjandi hætti. Oftar en ekki er tækið það kraftlaust að það tekur nokkrar mínútur að þerra hendur og á eftir manni myndast slík röð að maður neyðist til að víkja hálfblautur. Líka er algengt að tækið þurfi að endurræsa á 3 sekúndna fresti því það er þannig stillt að menn eiga að þerrast á 3 sekúndum. Þetta er náttúrulega bara bull sem enginn nennir að standa í. Þetta minnir mig á annað vandamál þegar maður er í samkvæmi í heimahúsi. Þá þvær maður hendur og ætlar að þerra í handklæði við vaskinn. En þá er það orðið rennblautt af notkun fyrri klósettgesta. Á maður að þerra hendur í næsta handklæði, hugsanlega sparihandklæði einhvers ábúenda heimilisins? Maður spyr sig hvort það sé ekki bara betra að sleppa því að þerra hendur.
Þá er komið að smá vandamáli. Það er nefnilega svo ótrúlegt að ef maður sleppir því að þurrka sér um hendur eftir handþvott þá hittir maður alltaf einhvern sem réttir fram spaðann. Þá er mjög óþægilegt að þurrka sér á hendi náungans og þeim mun verra að taka ekki í hönd náungans. En verst er að segjast vera nýkominn af klósettinu og hún sé öll blaut þ.a. maður getur ekki tekið í spaðann á viðkomandi. Þá líður manni alltaf eins og maður hafi alls ekkert þvegið sér um hendur. Þetta er vesen.
Bestu almenningssalernin eru þannig úr garði gerð að við vaskinn er kasssi fullur af einnota pappírsservéttum sem hægt er að þurrka sér í og henda í ruslið. Það er fljótlegt og þægilegt og maður getur tekið í hönd allra eftir á alveg óhræddur, og tilbúinn að takast á við öll vandamál. Bravó.
Farinn að hakka í mig afganga frá sprengidegi....svo gott í morgunsárið.
<< Home