GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, febrúar 02, 2004

Er ég nörd?

Ég hef ávallt staðið staðfastur í þeirri trú minni að ég sé nörd. Ég hef gaman að góðum stærðfræðidjókum, hef tekið þátt í ófáum stærðfræðikeppnum snemma á laugardagsmorgnum og spila civilization 3, helst á netinu. Hins vegar hef ég jafnframt ávallt talið að ég sé fremur kúl af nörd að vera ef slíkt er hægt. Ég hef jafnframt oft deilt við menn um hvað felist í því að vera nörd og hvort það sé nauðsynlega slæmt að vera nörd. Því er mikilvægt að svara spurninginni: Hvað er nörd?

Þegar flestir hugsa um nörd kemur upp strákslegur, álkulegur, örlítið bólugrafinn unglingur með gleraugu sem hefur mikinn áhuga á tölvum, stærðfræði eða öðrum greinum sem almenningur hefur ekki sterka löngun á að setja sig inn í. Ég hef hins vegar reynt að rökstyðja að nördar komi úr fleiri áttum en þessum viðteknu nördahópum. Ég hef verið að reyna að koma fótum undir eftirfarandi skilning á orðinu:

Nörd er sá sem er mjög sérhæfður á ákveðnu sviði og notar frístundir sínar til þess að sinna þessu áhugasviði sínu. Nörd byggir jafnframt húmor sinn að miklu leyti á áhugasviði sínu og segir því mestmegnis gamansögur sem aðeins samnördar hans geta hlegið að.

Með slíkum skilningi geta nördar komið úr flestum þáttum þjóðfélagsins. Menn geta þá verið tölvunördar, viðskiptanördar eða jafnvel knattspyrnunördar. Ég hef kynnst bankaheiminum nokkuð og hef orðið var við húmor sem byggir alfarið á hugtökum úr viðskiptaheiminum og utanbransamenn eiga erfitt með að skilja eða hlæja að. Þeir sem slíkan húmor iðka myndu því hiklaust teljast til nörda samkvæmt ofangreindum skilningi. Athygli skal vakin á því að það er ekkert sérstaklega slæmt að vera nörd í þessum skilningi.

Hins vegar hefur þessi skilningur minn ekki almennt verið samþykktur svo ég leitaði á mið orðabóka til þess að fá formlega skilgreiningu. Svona hljóðar skilgreiningin á nörd á dictionary.com (snarað lauslega yfir á íslensku):

1. Hlægileg, klaufaleg eða óaðlaðandi persóna.
2. Persóna sem hefur sérstaklega mikinn áhuga og sérhæfða þekkingu á ákveðnu sviði innan vísinda- eða tæknigreina en er álitin félagslega klaufaleg, skert eða vanhæf.

Hér má ljóst vera að heldur neikvæðari mynd er dregin upp af nördinum. Athugum þó að fyrri skilgreiningin er svo til innifalinn í þeirri seinni. Einnig er skilningurinn minn að ofan að mestu innifalinn í seinni skilgreiningunni. Að því sögðu legg ég til nýjan skilning og hugtakanotkun í umræðunni um nörda. Hún tekur mið af bæði mínum skilningi og formlegri skilgreiningu dictionary.com og felur í sér fjögur hugtök, nördinn, jákvæðan hálfnörd, neikvæðan hálfnörd og alnörd:

Jákvæður hálfnörd er sá sem er mjög sérhæfður á ákveðnu sviði og notar frístundir sínar til þess að sinna þessu áhugasviði sínu. Jákvæður hálfnörd byggir jafnframt húmor sinn að miklu leyti á áhugasviði sínu og segir því mestmegnis gamansögur sem aðeins samnördar hans geta hlegið að.

Neikvæður hálfnörd er hlægilegur, klaufalegur eða óaðlaðandi einstaklingur sem álitinn er félagslega klaufalegur, skertur eða vanhæfur.

Alnörd er sá sem telst bæði jákvæður og neikvæður hálfnörd.

Nörd er sá sem telst jákvæður hálfnörd, neikvæður hálfnörd eða alnörd.

Af öllu ofansögðu er deginum ljósara að ég er nörd en með þessum skilgreiningum get ég enn haldið í þá von mína að ég sé sá svali nörd sem jákvæðir hálfnördar geta verið án þess þó að taka á mig neikvæðnina sem felst í hinum neikvæða hálfnörd.

Fyrir þá sem velkjast í vafa um sinn innri nörd vísa ég á neðangreind próf. Bæði snúa þau þó að tölvunördum svo aðrir einstaklingar fá ekki staðfestingu á nördisma sínum með þeim. Fyrra prófið mælir hversu mikill nörd maður er (ég skoraði 31,91% í því). Seinna prófið er vafasamara og krefst þess að maður sé massatölvunörd til þess eins að geta skilið niðurstöðuna.

Er ég nörd?

Hvaða forritunarmál er ég?

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com