GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, desember 13, 2004

Verum töff!

Ég sá myndband við lagið "5 á Richter" með Nylon um helgina. Það þarf ekki að taka fram að þetta var alveg ýkt geðveikt gott lag. Gæti eitthvað sem Einar Bárðar snertir klikkað? Það sem vakti athygli mína í þessu myndbandi, fyrir utan hvað lagið er ýkt geðveikt gott, er umhverfið og andinn í myndbandinu og laginu. Þema lagsins er "hart" ef það er mögulegt hjá stelpnabandi og það fjallar um einhvern rosalegan gaur sem er "5 á Richter" (sem er reyndar ekki neitt neitt, það rétt myndi mælast). Myndbandið gerist svo í og við búr þar sem menn slást og veðjað er á útkomuna. Að sjálfsögðu er þetta allt með berum hnefum og tilheyrandi blóði. Þar sem allt conceptið á bak við Nylon er að reyna að höfða til sem flestra og koma með vöru sem selur verð ég að draga þá ályktun að ofbeldið sé þarna sett inn þar sem það er töff og ætti því að selja. Nokkuð svipað var uppi á teningnum í laginu Race City með Quarashi. Það var frekar hart rokk/rapplag og myndbandið fólst aðallega í því að sýna andlit sem varð æ blóðugra eftir því sem leið á lagið.

Það er svo sem mjög eðlilegt hjá Einari að reyna að nota ofbeldi sem markaðssetningu. Vinsælast mainstream tónlistarstefnan um þessar mundir er líklegast rapp sem kennt er við gangstera. Það gengur út á að lýsa hvernig best er að vinna sig út úr fátækt, eymd og öðrum aðstæðum. Það er að sjálfsögðu með góðri mixtúru af dópsölu, pimpi og svo töfraefninu, ofbeldi. Það er fátt sem hjálpar manni meira en að hamsa einhvern gaur rækilega. Það eru meira að segja komnir tölvuleikir þar sem maður er settur í gervi blökkumanns sem þarf að ræna, berja og drepa til þess að komast áfram í lífinu. Svo er það hliðarbúgrein í leikjunum að berja túrista, gamlar konur og löggur, annaðhvort með gömlu góðu hnefunum eða þá einhverri góðri kylfu.

Svo er það heldur ekki eins og íslenskt samfélag refsi mönnum að ráði fyrir ofbeldi. Gjaldkeri Símans var dæmdur í 6 ára fangelsi ef ég man rétt fyrir stuld á um 200 milljónum. Á sama tíma eru síbrotamenn dæmdir í 1-3 ára fangelsi fyrir fjölda líkamsárása sem dómstólar kalla "sérlega fólskulegar". Ég ætla svo sem ekkert að eyða mikilli orku í að verja fjárdráttinn en persónulega myndi ég frekar vilja láta stela af mér öllu sem ég á en að verða fyrir sérlega fólskulegri líkamsárás en það er bara ég.

Nú eru líka tvö nýleg dæmi þess að menn hafi fengið eitt höfuðhögg og látist eftir það. Væntanlega fá þeir einhvern lágmarksdóm enda hafa þeir bestu afsökun fyrir morði sem til er: "Æ, sorrý. Ég ætlaði bara að buffa hann." Hún virðist hafa virkað ágætlega hingað til. Svo er líka hin sígilda: "Æ, ég ætlaði ekkert að drep'ann, mar. Ég ætlaði bara að berj'ann í mauk."

Því hlýtur það að vera ljóst að ofbeldi er töff og ekkert sérstaklega refsivert. Þarna er komin fyrirbragðsleið til þess að öðlast smá virðingu og álit í þjóðfélaginu án þess að leggja sig mikið fram eða taka mikla áhættu. Við sem hingað til höfum ekki verið neitt sérstaklega töff getum nú orðið töff á einni nóttu með því að buffa einhvern í kássu.

Verum töff – buffum fólk.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com