Bobby Fischer frelsaður
Það hefur varla farið fram hjá mörgum landanum að við Íslendingar eigum von á fjölgun íbúa landsins um einn. Íslensk stjórnvöld hafa tekið þá ákvörðun að bjóða gamla skákjálknum Bobby Fischer að koma til Íslands og dvelja hér eins lengi og kempan hefur lyst eða löngun til.
Eins og flestir vita, þá kom Bobby til Íslands árið 1972 og sigraði hinn rússneska Spassky í heimsmeistaraeinvígi sem frægt varð. Skákin var háð í mjög pólitísku umhverfi og varð eiginlega hluti af kalda stríðinu. Sigurinn gerði Fischer því að hetju Bandaríkjanna enda var sérhverjum sigri á kommúnista ávallt vel fagnað. Hins vegar varð hann að skúrki þegar hann ákvað að endurtaka einvígið gegn Spassky í Serbíu árið 1992 í tráss við viðskiptabann Bandaríkjanna.
Þessi gjörningur er allur hinn steiktasti. Skákhreyfingin á Íslandi er búin að grafa sig niður í skotgrafir og gerir allt til þess að fá hetjuna sína til landsins og svo er Garðar Sverrisson af öllum mönnum mættur til að hjálpa. Hann ætlar greinilega að reyna að verða aftur maður ársins á Rás 2. Svo tekur Davíð Oddsson af skarið og leggur fram formlegt boð til Bobbys. Kenning mín um ástæður þess er sú að ég held að þetta sé auglýsingatrix hjá Dabba. Hann er að reyna að hrista af sér Kanamellustimpilinn sem er svo rækilega fastur á honum eftir Íraksstríðið og allt því tengt. Hann velur þetta auma smámál sem Bandaríkjamönnum gæti varla verið meira sama um og reynir að gefa Íslendingum þá mynd af sér að hann sé tilbúinn að standa uppi í hárinu á Bandaríkjamönnum. Ágætis ryksláttur hjá honum.
Ástæðurnar sem eru nefndar eru síðan svo smáborgaralegar og snobbaðar að hið hálfa væri tvisvar sinnum of mikið. Það er talað um þennan “mikla skáksnilling” sem “kom Íslandi á kortið” og fleira þess háttar. Staðreyndin er náttúrulega bara sú að hann er þekktur geðsjúklingur með vafasamar skoðanir sem hann básúnar þegar hann fær tækifæri til og þessar skákir sem hann hefur verið að tefla, á Íslandi og í Serbíu, eru bara gróðaleið fyrir hann. Sá sem borgar nóg fær Fischerinn, hvort sem það er einræðisherra í þjóðernishreinsunum eða einhver annar.
Á sama tíma er svo verið að vísa útlendingum sem eru giftir Íslendingum úr landi. Ég myndi miklu frekar fá vinnusaman ungan einstakling heldur en þennan gamla geðsjúkling. Mér skilst samt að hann eigi fullt af pening og það róar mig að hluta að hann geti að minnsta kosti borgað undir sig.
Enn er þó ekki útséð um það hvort þessi “Íslandsvinur” komi til landsins jafnvel þótt íslenskir fjölmiðlar segi að hann langi mikið að koma til Íslands. Reyndar sagði Bobby það ekki alveg nákvæmlega heldur “I want to get out of this fucking Jap place” en það er um það bil það sama. En hvað sem öðru líður verður eflaust forvitnilegt að sjá hvað verður um þann gamla og eflaust mun hann verða okkur til gamans með vitleysisgangi sínum. Svo segir mér líka hugur um að hann gæti birst í áramótaskaupinu.
Pís át.
<< Home