GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Eddan

Í gærkvöldi fór fram afhending hinna árlegu íslensku sjónvarps- og kvikmyndaverðlauna, Eddunnar. Flestir Íslendingar þekkja þessi verðlaun sem minna um margt á Ólympíuleikar fatlaðra, nokkrir misfatlaðir keppa í hverjum flokki og sá minnst fatlaði vinnur. Við veitingu verðlaunanna er úrval sjónvarps- og kvikmyndaefnis sem Íslendingar hafa framleitt á síðasta ári skoðað og hið besta verðlaunað. Í ljósi þess hve lítið úrvalið er af íslenskum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum eru flestir flokkar aðeins með þremur tilnefningum. Til bestu myndar eru til dæmis tilnefndar þrjár myndir, sem þýðir yfirleitt allar íslenskar myndir sem drifu í bíó það árið. Einnig eru þrír sjónvarpsþættir tilnefndir sem besti þátturinn, það eru jafnan Sjálfstætt fólk, Fólk með Sirrý og svo einhver einn til viðbótar sem þetta árið var Í brennidepli. Fyrir besta skemmtiþátt eru svo líka þrír tilnefndir, Spaugstofan á fast sæti þar á meðal og Svínasúpan stefnir líka óðfluga að tilnefningaáskrift. Þriðji þátturinn í þessum flokki var svo Idolið. Eins og Tvíhöfðabræður bentu réttilega á er álíka skynsamlegt að tilnefna þennan “íslenska” þátt til Eddunnar og að tilnefna til dæmis Don Kíkóta eða einhverjar aðrar þýðingar á erlendum bókum til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Þetta árið vann Spaugstofan í síðastnefndum þætti. Margir úr yngri kynslóðinni bölva þessu enda Sveppa- og Audda æði að tröllríða æskunni um þessar mundir. Ég verð hins vegar að lýsa ánægju minni með þessa verðlaunaveitingu og spaugstofuna almennt. Þetta er langbesta þjóðfélagsádeilan sem Íslendingar hafa. Þá er líka að finna fínustu fimmaura inn á milli. Um liðna helgi var til dæmis eftirfarandi fimmaur fluttur:

Örvar: “Það er nú agalegt ástandið þarna í Palestínu, hvað ætli þeir geri nú þegar Arafat er dáinn?”
Bogi: “Hva, hljóta þeir ekki að eiga varafat?”

Klassíker á ferðinni þarna. Einnig má nefna fasta liði eins og “Fólkið á bakvið tjöldin” sem er mjög ferskur dagskrárliður en ég ætla nú ekki að fara nánar út í hann. Að sjálfsögðu er ekki allt sama snilldin hjá þeim en ég hvet fólk til þess að horfa á næsta þátt með opnum hug og reyna að njóta þeirra brandara sem vel eru heppnaðir.

Nokkur fjölskyldubragur var á tilnefningum til bestu leikara þetta árið. Þeir feðgar, Ingvar E. Sigurðsson og Áslákur Ingvarsson börðust um útnefningu sem besti leikari og systir Ásláks, Snæfríður, var tilnefnd sem besti leikari/leikkona í aukahlutverki en aðeins faðirinn náði verðlaunum. Svona mikill fjölskyldubragur er svo sem ekkert einsdæmi og er ekki óalgengt að börn óskarsverðlaunahafa vinni til verðlauna og slíkt hið sama má svo sem líka segja um forsetakosningar í Bandaríkjunum en það er nú allt önnur Ella.

Látum þau orðin nægja í bili.

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com