GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, nóvember 29, 2004

Er ég efni í poppstjörnu?

Það er ótrúlegt elementið í manni sem telur manni trú um að hæfileikar manns séu meiri en þeir raunverulega eru. Til dæmis held ég stundum, þegar ég sleppi mér í söngnum í sturtunni, að ég hafi hæfileika til þess að verða poppstjarna. Hugsunin staldrar yfirleitt stutt við en hún kemur upp í hausnum á mér við og við. Þegar ég horfi á fótbolta og sé einhvern atvinnumanninn gera mistök þá dettur mér líka ótrúlega oft í hug að ég sé betri en viðkomandi og gæti allt eins verið að spila þarna. Það kemur meira að segja stundum yfir mig einhver svekkelsistilfinning vegna þess að ég fór að æfa handbolta (sem er óverjandi) en ekki fótbolta þegar ég var yngri. Þá hefði ég kannski verið kominn í atvinnumennskuna núna og fjárhagsleg framtíð mín væri örugg. Síðan man ég hvað ég var nú lélegur í handbolta og að ég er engu betri (og líklega lélegri) en meðaláhugamaðurinn í fótbolta sem spilar einu sinni í viku með félögunum og ég kem aftur niður á jörðina. Ég er núna endanlega búinn að gefa upp knattspyrnudraumana enda hafa fáir náð langt sem ekki hafa byrjað að æfa fyrir 24 ára aldurinn. Hins vegar hafa margir orðið poppstjörnur eldri en það og svo er ég örugglega ágætis leikari, ég hef bara ekki fengið tækifæri enn til þess að sanna mig. Ég get alveg meikað það ennþá á þessum sviðum. Hvað veldur svona firrtum hugsunarhætti hjá fólki, jafnvel jarðbundnum og raunsæum einstaklingum eins og mér?

Í gegnum þróunarsöguna hafa væntanlega þeir bjartsýnu sem héldu að þeir væru æðislegastir í öllu haft sig nógu mikið í frammi og verið nógu framtakssamir að þeir hafa náð að hitta einstakling af hinu kyninu og framleiða lífvænlega okfrumu. Þannig hefur þessi firring mannsins um að hann sé líklega bestur í flestu flust niður eftir kynslóðum. Firringin einbeitist síðan að þeim sviðum sem virðast ekki neitt sérstaklega flókin, svona fljótt á litið. Það er í sjálfu sér ekkert flókið að spila fótbolta, maður gleymir því bara stundum að atvinnumenn eru flestir búnir að æfa í fjöldamörg ár af slíkum krafti að jafnvel með mesta ofáti gæti maður ekki viðhaldið 24% fitumagni eins og sumum ágætum knattspyrnumönnum tekst. Síðan virðist það nú ekki mikið mál að verða söngvari eða hljóðfæraleikari og detta niður á einhverja góða melódíu og vera bara set for life. Flestir sem það gera hafa samt auðvitað lært og stundað í fjöldamörg ár og jafnvel lifað við sult á meðan allur tími og orka eru sett í tónlistina. Hins vegar dreymir færri um að verða kjarnorkueðlisfræðingar eða heilaskurðlæknar, það er einhvern veginn ekki alveg í augsýn að maður detti inn í það fyrir einhverja slembilukku og kannski er það ekki jafneftirsóknarvert.

En hvað á maður eiginlega að halda þegar gaurar eins og Jón Sigurðsson eru að gefa út breiðskífur? Ég hef svo sem ekki hugmynd um það hvort eitthvað er að seljast hjá honum eða muni gera það en einhver hefur a.m.k. séð fjármunum sínum vel varið í að framleiða og gefa út heila plötu með honum. Maður hlýtur að spyrja sig hvort maður eigi ekki góða sénsa þegar munnhörpuröddin í honum er ekki einasta tekin upp og varðveitt heldur líka fjölfölduð og loks er reynt að selja hana fólki til yndisauka! Maður skilur fyrirbæri eins og Nylon, þær eru hörkusætar og kunna ágætlega að syngja, þótt þær hafi auðvitað ekki mikið nýtt fram að færa. En að lifa í þjóðfélagi sem samþykkir að Jón Sigurðsson sé poppstjarna sem ástæða er að koma á framfæri hjálpar lítið til að eyða firringunni sem blossar upp í hausnum á manni við og við. Ef Jón getur orðið poppstjarna þá hlýt ég að geta það líka. Maður fer kannski bara að preppa sig fyrir Idolið á næsta ári.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com