Bingó!
Í síharðnandi samkeppni á sjónvarpsmarkaði er stöðug pressa á að sjónvarpsstöðvar komi með eitthvað nýtt og ferskt. Holskefla raunveruleikaþátta hefur tröllriðið heiminum að undanförnu en þeir byggja aðallega á því að fólk hefur gaman að keppni, hvort sem það er með í keppninni eða bara áhorfendur. En stundum þarf ekki nýja hugmynd, stundum er nóg að klæða gamla hgumynd í nýjan búning. Skjáreinn er búinn að gera þetta í nýjum þætti þar sem er farið bakk tú ðe beisix. Þetta er þátturinn Bingó með Villa úr 200.000 naglbítum.
Í stuttu máli er þátturinn ekki ósvipaður Bingó Lottó með Ingva Hrafni frá því í den nema með slatta af túrett, dash af geðklofa og reglur sem má sveigja fram og aftur. Það er í raun bara verið að spila Bingó, Villi dregur númer og maður bíður eftir því að fá heilar línur lárétt, lóðrétt eða fullt spjald. Allir geta verið með og allt er ókeypis ef ég skil þetta rétt. Ef Villa dettur það í hug sleppir hann því að draga tölur og velur tölur eftir eigin geðþótta. Síðan eru vinningar algjörlega háðir skyndiákvörðunum Villa og allt er þetta við undirspil skemmtaraorgels. Meðal vinninga í síðasta þætti voru bíll, playstation tölva, ferðageislaspilari, 40 kg af hrísgrjónum, matarolía, full frystikista af pylsum og playmo.
Ég mæli með því að fólk skjóti Sjálfstætt fólk með Jóni Ársæli og helli sér í Bingóið á sunnudagskvöldum klukkan 20. Nánari upplýsingar um Bingó fást hérna.
Úti í Ameríku er svo ávallt verið að reyna að fylgja tíðarandanum og búa til nýja þætti sem fjalla um málefni líðandi stundar. Nýjasta tískan eru hryðjuverkaþættir. Á sunnudagskvöldum á Stöð 2 er hryðjuverkaþátturinn Grid sem á að sýna baráttu bandarískra og breskra öryggisstofnana gegn hryðjuverkaöflunum. Þetta er kannski tilbreyting frá öllum raunveruleikaþáttunum en ég finn mig ekki alveg í þessum hryðjuverkapælingum. Þátturinn missti líka slatta trúverðugleika þegar sagan færðist til Egyptalands. Þar voru tveir Arabar, þar af annar massahryðjuverkamaður, að spjalla saman og þeir skiptu mikið milli enskunnar og arabískunnar. Það komu fínir kaflar á arabísku en svo fannst þáttahöfundum greinilega að áhorfendur þyldu ekki meira og skiptu yfir í ensku. Þannig fá áhorfendur smá pásu áður en næsti kafli á arabísku hefst aftur. Þetta fer í mínar fínustu. Gæti einhver ímyndað sér að þegar Osama, Al Zarqawi og Múlla Ómar hittast þá spjalli þeir saman á arabísku og ensku svona í bland? Sumt hljómar reyndar miklu meira kúl á ensku en á arabísku en samt sem áður held ég að þeir myndu frekar taka hópsjálfsmorðsárás saman heldur en að spjalla á tungu óvinarins.
Þá vil ég tilkynna skipulagsbreytingar. Ellert mun taka yfir miðvikudaga og Bjössi tekur fimmtudaga, ef ég hef skilið þetta rétt. Þá þýðir það væntanlega líka að Ellert á könnun.
Góðar stundir.
<< Home