GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Í kómískum öldudal?

Ég hældi Spaugstofunni fyrir viku þvert á almenna skoðun ungra Íslendinga. Ég horfði líka á hana nú um liðna helgi og var ekki alveg jafnhrifinn. Þegar maður horfir á svona þátt sem í besta falli getur talist meðalgóður og tekur það með í reikninginn að hann sé “Besti skemmtiþáttur” í íslensku sjónvarpi hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort íslensk gamansemi sé í lægð.

Ég horfði á nokkra gamla Fóstbræðraþætti um helgina og fór þá að muna hvernig gott grín hljómar á íslensku. Sketsjar eins og “Persónulegi trúbadúrinn Helgi”, “Hitler í karaoke”, “Leigubílstjóri dauðans” og slatti af prumpudjókum ylja manni nú þegar köldustu nóvemberdagar í fleiri aldir gera heiðarlega tilraun til að frysta af manni útlimina. Fóstbræður voru yndisleg samsuða af frábærum grínistum sem gátu framleitt bull og vitleysu í tonnatali og svo snilldarleikurum sem tóku efnið og færðu það í slíkan búning að 24,1% fituhlutfallið nötraði og skalf utan á manni. Fóstbræður voru þéttur pakki af 100% gríni sem hafði varla veikan blett, nema undir blálokin kannski.

Fyrir utan eilífðarvélina, sem Spaugstofan er, má helst nefna grínteymi Norðurljósa, 70 mínútna gengið og svo Tvíhöfða sem eru að gera eitthvað í gríni á Íslandi. 70 mínútur eru vissulega aðhlæjanlegar á köflum en þær eru samt ekki mikið meira en góður spjallþáttur, hlutfall meðalskemmtilegs spjalls er allt of hátt. Ferskleikinn er líka stöðugt minni enda eru þeir félagar að fara að leggja upp laupana um áramótin. Svínasúpan gerði heiðarlega tilraun til að fylla upp í tómarúmið sem Fóstbræður skildu eftir sig en mistókst því miður. Mjög stór hluti sketsjanna er einfaldlega ekki fyndinn og flestir fyndnu sketsjanna eru þannig að maður rétt glottir en nær ekki alveg að hlæja. Leikararnir eru líka ekkert á við gömlu góðu Fóstbræðurna eða elliheimilismatinn í Spaugstofunni. Svo er reyndar Tvíhöfði aftur orðinn rétt mannaður eftir sorglegt tímabil þar sem verri helmingur ásamt handahófskenndum gestum reyndi að halda haus. Guði sé lof fyrir að Jón Gnarr er kominn aftur.

Það er kannski bara málið að Jón Gnarr er ekki allt í öllu í gríninu þessa dagana. Hann var auðvitað driffjöðurin í gamla góða Tvíhöfðanum og svo líka hjartað í Fóstbræðrum. Meira að segja hefur honum nú upp á síðkastið tekist að breytast úr farsakenndum vitleysingi í bráðsmellinn heimspeking með alvarlegum undirtóni. Ég verð ætíð þakklátur fyrir það að Jón rambaði úr leigubílabransanum inn í útvarp. Það má kannski bara vera að það sé engin lægð núna, það er bara ekki sama gullöldin og fyrir nokkrum árum þegar Jón var hvað víðtækastur.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com