RÚV á dauðadeildina!
Í síðustu viku voru þrjár útvarpsstöðvar lagðar niður, X-ið, Skonrokk og Stjarnan. Fyrri tvær stöðvarnar eru þær "hörðustu" á landinu og þessar stöðvar eru hvað vinsælastar hjá þeim sem hlusta ekki á commercial main stream drasl sem er spilað á FM og Bylgjunni. Ég hugsa að við Skítsmenn föllum flestir í þann svala hóp en jafnframt er Rás 2 fyllilega áhlustanleg, á köflum að minnsta kosti. Strax tveimur dögum seinna var ný stöð send í loftið, X-FM, sem á að byggja á sama hlustendahópi og gamla X-ið gerði.
Útvarpsstöðvar koma og fara enda er langt í frá auðvelt að halda úti einhverri dagskrárgerð að ráði án þess að þurfa að þola viðvarandi taprekstur. Það eru helst þrjár stöðvar sem maður sér lifa í gegnum hvað sem er: Bylgjan, FM og Rás 2. Bylgjan og FM ná að gera það með mjög almennri tónlistarstefnu sem margir hlusta á og hvað FM varðar er það einnig lykilþáttur í velgengninni að þættirnir eru yfirleitt einfaldir, þ.e. þeir byggja yfirleitt á litlu spjalli, mikilli tónlist og umfram allt góðu sponsi. Galdur Rásar 2 er hins vegar sígildur og hefur tíðkast víða, sérstaklega þar sem framþróun lýðræðis hefur ekki náð langt, en það er eitt stykki ríkisstjórn sem borgar reikninginn.
Raunar er það ekki svo einfalt að ríkið borgar reikninginn heldur eru sjónvarpseigendur skyldaðir til þess að greiða fyrir rekstur ríkisútvarpsins hvort sem þeim líkar betur eða verr og hvort sem þeir nota einhvern tímann þá þjónustu sem þeir greiða fyrir. Til dæmis þarf sá sem á sjónvarp og horfir bara á SkjáEinn og Stöð 2 að borga á meðan sá sem á bara útvarp og gerir ekki annað en að hlusta á Rás 1 og 2 allan daginn fær þá "gæðadagskrá" ókeypis í boði sjónvarpseigandans. Sumum finnst þetta kannski sanngjarnt. Á þessu ári munu 2,5 milljarðar fara frá sjónvarpseigendum til ríkisútvarpsins í gegnum afnotagjöldin.
Rökin fyrir því að viðhalda ríkisútvarpi (bæði sjón- og hljóðvarpi) eru yfirleitt af menningarlegum toga. Almennt er það nefnilega þannig að ef fólk fær að velja hvað það framleiðir og hlustar eða horfir á þá er það yfirleitt ómerkilegt, heimskulegt eða í besta falli ekki mjög menningarlegt. Þá gæti það fallið í þá gryfju að velja erlent lágmenningarefni í stað íslenskrar gæðaframleiðslu sem má auðvitað ekki gerast. Við verðum bara að sætta okkur við þá staðreynd að það er menntaelíta sem veit betur hvað okkur er fyrir bestu að hlusta á, við megum ekki láta glepjast út í það að hlusta á það sem okkur dettur í hug hverju sinni.
Reyndar hefur Rás 2 vaxið mjög í áliti hjá mér síðustu ár. Hún er, að mínu mati, mjög góð blanda af fréttum, fréttatengdu efni og góðri tónlist. Hún hefur enda fjárhaginn til þess. Rás 2 missti hins vegar mörg stig hjá mér þegar ég sá hina silfurhærðu Andreu Jónsdóttur, annan helstu rokk/poppspekinga rásarinnar (hinn er auðvitað Óli Palli), tjá sig um ástandið sem væri að myndast með færri útvarpssöðvum og erfiðum rekstri. Ég man nú ekki hvort henni fannst þetta mjög jákvætt eða neikvætt en hún gat ekki neitað því að auðvitað væri dagskrá hinna útvarpsstöðvanna nú ekki mjög merkileg. Þar væri þunn dagskrá sem fólk sem "veit mjög lítið um tónlist" stjórnar. Ef ég væri ekki jafnprúður ungur maður og raun ber vitni þá myndi ég segja henni að troða þessu snobbi ásamt silfurlokkunum í eitthvað vel valið gat.
Því legg ég til (eins og líklega einhvern tímann áður) að Ríkisútvarpið verði lagt niður eða selt hið snarasta. Ef alþjóð sér ástæða til þess að verja fjármunum í íslenska dagskrárgerð (sem ég geri ekki) væri miklu eðlilegra að gera slíkt með því að styrkja þætti sem vel eru gerðir heldur en að láta eina útvarpsstöð fá fullt af pening til þess að leika sér með.
Að lokum vil ég hvetja aðra Skítsmenn til skrifa. Í síðustu viku birtust 2 pistlar.
Góðar stundir.
<< Home