GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

sunnudagur, janúar 02, 2005

Ísland, ríka Ísland

Ísland er ríkt. Ég held að flestir Íslendingar geri sér grein fyrir þessu og þið ykkar sem gerið þið ekki, vaknið þið sem fyrst. Það er nefnilega gott að búa á Íslandi. Íslendingar eru ofarlega á flestum topp-tíu listum yfir landsframleiðslu, lífsgæði og annað í heiminum. Við fáum góðar tekjur, fáum nóg að borða og verðum frekar gömul í okkar ágæta heilbrigðiskerfi. Fátækt er vissulega til staðar á Íslandi en mælikvarðinn á fátækt er talsvert annar hér en víðast hvar í heiminum. Hér þýðir það að vera fátækur að maður fái ekkert sérstaklega góðan mat, börnin manns geti ekki stundað íþróttir og maður geti almennt ekki leyft sér mikinn munað. Þetta er vissulega ekki gott en samanborið við það að svelta í hel er þetta samt bara helvíti fínt. Já, Ísland er ríkt.

En einn er sá lúxusinn sem hvergi kemur fram á topp-tíu listum alþjóðagjaldeyrissjóðsins, alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eða heimsbankans. Það er íslenska kvenfólkið. Ég hef ferðast svolítið og dvalist í nokkurn tíma erlendis og hef jafnframt borið saman bækur mínar við aðra Íslendinga sem búið hafa erlendis í nokkurn tíma. Við erum sammála um eitt: Íslenskar konur eiga sér vart hliðstæðu í heiminum. Persónulega hef ég ágætan samanburð við Ítalíu og Þýskaland. Ítalir eru nú nokkuð rómaðir fyrir fallegt fólk og ég get skrifað undir það að nokkru leyti. Á Ítalíu er mjög mikið um ásættanlegar konur en Ísland á miklu fleiri drottningar. Þýskaland á svo ekki nokkurn séns í neinn samanburð við Ísland í þessum málum. Já, Ísland er ríkt.

En Ísland er líka dýrt. Við fáum góðar tekjur en við vinnum mikið. Með þessum háu tekjum getum við svo keypt góðan mat sem er svo dýr. Og heilbrigðiskerfið er gott en við borgum líka nokkuð háa skatta. Að sama skapi er kvennamarkaðurinn nokkuð skilvirkur og réttilega hátt verðlagður. Íslenskar konur eru fallegar, vita það best sjálfar og ætla ekki að selja sig ódýrt. [Bara svona til að koma í veg fyrir væl, byggt á misskilningi, skal bent á það að hugtökin verð og dýr geta svo sannarlega átt við annað en peninga. Þannig getur það verið "dýrt" eða "kostnaðarsamt" að eyða löngum tíma í eitthvað, þurfa að leggja sig mjög fram við eitthvað eða eitthvað í þá áttina án þess að peningar eða veraldleg verðmæti komi nokkurn tíma við sögu] Ekki veit ég alveg hvort íslenskir karlmenn eru sama gæðavaran og íslenskar konur, enda hef ég ekki hugmynd um hvernig konur verðmeta karla. En ef karlþjóðin er jafngóð og kvenþjóðin er augljóst að við meðalmennirnir þurfum að hafa okkur alla við til þess að landa einhverjum af þessum úrvalskvendum sem landið elur af sér. Því er ekkert að gera nema bara bretta upp ermarnar og halda áfram að njóta hagstæðs kvennaástands á landinu á nýju ári.

Verum því bara sátt við lífið og njótum okkar gæfu því jú, Ísland er ríkt.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com