GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, desember 29, 2003

Einhleypingalaus ritstjórn 2005

Nú er árið 2003 senn liðið í aldanna skaut og litlar líkur á því að það komi nokkurn tímann aftur. Margt hefur á daga ungs drengs drifið og nokkuð hefur runnið í reynslubrunninn. Námskeið í verkefnastjórnun var ein þeirra linda sem brunnurinn þáði úr þetta árið, þótt reyndar væri það reynsluflóð fremur mælt með dropateljara en stórvirkari mælitækjum. Feitasti dropinn þar var uppgötvun markmiðasetningar.

Að setja sér markmið er góð skemmtun og það eitt að stefna að metnaðarfullu markmiði getur skilað merkum árangri jafnvel þótt markmiðinu sjálfu sé ekki að fullu náð. Markmiðum er ætlað að halda þeim er þau setur við efnið og viðhalda einbeitingu og aðgerðum til þess að ná árangri. Markmið þurfa að sjálfsögðu að vera raunhæf en æskilegt er þó að þau séu metnaðarfull og ekki auðnáanleg.

Þessi umræða mín um markmið er ekki bara út í bláinn. Staða ritstjórnar Skítsins er nefnilega þannig að þrátt fyrir mikla rithæfileika, kímni og aðra kosti hafa aðeins 40 hundraðshlutar hennar landað maka, hinir 60 standa enn með stöng og beita. Þrátt fyrir einstaka nart hefur okkur í kvenlausa meirihlutanum enn ekki tekist að lokka neina golþorska á okkar öngla. Málið er nefnilega að við dorgum á bakkanum. Við hættum okkur ekki út í iðuna og sveiflum beitunni í kringum nef bráðarinnar. Það vantar viljann, það vantar áræðni, það vantar markmið.

Því mælist ég til þess að nýársheit verði strengd og markmið sett um komandi veiðiár. Nú eru rúmir tveir sólarhringar til stefnu og hvet ég einhleypinga innan ristjórnar jafnt sem utan að stinga höfðinu á rakan stað og ákvarða persónulegt aflamark áður en árið 2003 rennur sitt skeið og ólympíuárið 2004 tekur við kyndlinum.

Grunnreglan í þessum efnum er að setja sér mælanleg markmið. Hver og einn verður að ákvarða hvað hentar honum en eðlilegast er að binda markmiðasetningu við ákveðinn árangur á ákveðnu tímabili, t.d. mánuði. Að loknu hverju tímabili er svo litið til baka, árangur borinn saman við markmið og kannað hvað vel var gert og í hvaða göt þyrfti að stoppa. Misjafnt er hversu opinber mönnum þykir markmiðin þurfa að vera. Ég tel að markmiðin séu best geymd á blaði í læstri skúffu sem aðeins markmiðasetjandi hefur lykil að, þau eru aðeins sett til að þjóna setjanda sínum.

Aðalatriðið er að guggna ekki á markmiðasetningunni. Með henni eru völdin fjarlægð úr titrandi höndum þess er flýtur að feigðarósinum og sett í járngreipar hins sem berst upp strauminn. Vinur minn og félagi, Jesús Kristur, var eitt sinn staddur á fjalli og mælti: „Leitið og þér munið finna, biðjið og yður mun gefast, knýið á og fyrir yður mun upplokið verða.” Ef við sleppum bænahlutanum þá hitti kauði naglann á höfuðið, með seiglunni hefst það. Upp með sokkana, einhleypingar. Vettlingatök eru hér með útlæg ger.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com