GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, desember 15, 2003

Hagsmunapotarar athugið!

Helgina 19.-21. desember næstkomandi verður haldið ársþing Samtaka hagsmunapotara. Þar verður margt á boðstólum og ber helst að nefna fyrirlestra um helstu þætti hagsmunagæslu svo sem gæsla sérhagsmuna og eiginhagsmuna.

Fyrirlesarar í sérhagsmunapoti verða tveir að þessu sinni. Þingmaðurinn Kristinn H. Gunnarsson (B) verður aðalfyrirlesari og kollegi hans Einar Oddur Kristjánsson (D) verður honum til innan handar ef áhugamenn um almannahagsmuni skyldu mæta á svæðið. Þeir hafa unnið sérstaklega vel að hagsmunum smábátasjómanna á Vestfjörðum og eru í þann mund að ná línuívilnun í gegn. Þetta telst mjög gott hagsmunapot, sérstaklega í ljósi þess hve hagsmunahópurinn er lítill.

Þingkonan Drífa Hjartardóttur (D) verður svo með byrjendanámskeið í eiginhagsmunagæslu. Drífa hefur barist hart fyrir ríkisstyrkjum til sauðfjárbænda enda sauðfjárbóndi sjálf auk alþingismannsembættisins. Drífa vakti athygli hagsmunapotara um land allt er hún var búin að missa öll rök fyrir máli sínu og kenndi svínabændum (sem lepja dauðann úr skel) um slæma stöðu sauðfjárbænda þar sem þeir selja einnig kjöt.

Framhaldsnámskeið í eiginhagsmunapoti verður svo gestafyrirlesarinn Silvio Berlsuconi með. Hann hefur náð afskaplega góðum árangri í greininni, er við það að vinna eiginhagsmunum sínum hærri stall en almannahagsmunum ítölsku þjóðarinnar og er það sérstaklega vel af sér vikið.

Síðasti fyrirlesarinn þetta árið er svo Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, en hann verður með fyrirlestur um ræktun hagsmunapotara en hann hefur lagt sitt af mörkum til þess að ýta undir hagsmunapot þingmanna og skammaði t.d. þingmanninn Jóhann Ársælsson fyrir að styðja ekki styrki til sauðfjárbænda jafnvel þótt Jóhann væri úr “sauðfjárræktarhéraði”.

Að loknum fyrirlestrum mun svo Árni Johnsen, stofnandi samtakanna, vera með skemmtiatriði.

Þá má geta þess að Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings-Búnaðarbanka, mun árita bók sína, “Báðum megin við borðið” milli kl. 16 og 18 á laugardeginum.

Aðgangur er ókeypis fyrir meðlimi, en aðrir geta komist inn fyrir 2.500 krónur eða einn greiða sem samtökin munu þá eiga inni hjá viðkomandi.

P.S.

Þegar þessi dagskrá var undirbúin var frumvarp um eftirlaun þingmanna og ráðherra ekki komið fram. Í ljósi þess hefur áhugi vaknað innan Samtakanna að fá fyrirlestur í flokkshagsmunapoti. Reynt verður að fá Davíð Oddson til verksins en nánar verður tilkynnt um það síðar.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com