Skammur dagur
Þegar þessi pistill er skrifaður er stysti dagur ársins, 21. desember, senn á enda. Sól var á lofti frá kl. 11:21 til kl. 15:30 í Reykjavík í dag, sem gerir rúmar fjórar klukkustundir af dagsbirtu. Það þýðir hátt í 20 klukkustundir af myrkri. Ekki bjartir tímar fyrir skammdegisþunglynda. Reyndar hef ég heyrt að Íslendingum sé síður hætt við skammdegisþunglyndi en öðrum. Það mætti skýra skv. Darwin með því að hinir svartsýnni hafi nú þegar útilokað sig frá þátttöku í lífinu, annaðhvort með töku á eigin lífi eða vegna skammdegisaumingjaskaps sem hefur leitt til dauða í erfiðri lífsbaráttu Íslendinga til forna. Raunar er alveg óskiljanlegt að nokkur maður hafi nennt að þrauka veturinn á þessu guðsvolaða landi án þess að sjá handa sinna skil hálft árið.
Sem námsmaður hef ég þó alveg misst af desemberskammdeginu vegna próflesturs og sýti ég ekki þann missi. Nú eru líka jólaseríur víða komnar upp sem ásamt snjónum veita birtu inn í sálina á þessum myrku tímum. Hins vegar mun skammdegisþunglyndið væntanlega kikka inn þegar jólum lýkur, seríur fara aftur inn í bílskúrana og skólinn hefst á ný. Janúarveðrið klassíska, rok og kuldi gerir líka lítið til að lyfta geðinu.
Því legg ég til að menn nýti jólin til að safna upp varaforða af geðheilsu og jákvæðni sem ganga þarf á þegar þorrinn fer að nálgast. Svo má líka alltaf hugga sig við það að botninum er náð, dagurinn lengist bara héðan í frá.
Að lokum vil ég benda ManU-áhangendum á það að daginn verður aftur farið að stytta þegar Rio nokkur Ferdinand kemur aftur úr leikbanni. Kannski Rio flýji skammdegið og skelli sér í 8 mánuðina til Rio de Janeiro.
Gleðileg jól.
<< Home