Fyrirmyndirnar mínar
Idol-stjörnuleit tók stökk á föstudaginn síðastliðinn þegar sniði keppninnar var breytt en þá var fyrsta beina útsendingin frá Smáralind. Nú syngja keppendur í beinni og í stað þess að einn eða tveir komist áfram dettur einn út í hverjum þætti (reyndar tveir á föstudaginn). Undirritaður var fremur neikvæður gagnvart þáttunum til að byrja með en hefur nú tekið þeim tiltölulega opnum örmum og horfði á þáttinn á föstudag. Hér að neðan fer stutt umfjöllun um hvern af þeim níu sem enn voru með á föstudaginn. Margt smátt gerir þó eitt stórt og er því pistillinn frekar langur að þessu sinni.
Kalli Bjarni
Kalli þessi er sjómaður af Akranesi og við fyrstu sýn virðist hann ekki til margs líklegur. Hann er þessi týpíski FM-hnakki með strýpurnar og donut-inn og fordómarinn í manni telur þennan gaur ekki líklegan til vinsælda. Þegar hnakkinn hóf hins vegar raust sína kom í ljós að ekki er allt sem sýnist og deginum ljósara að þarna er hörkusöngvari á ferð. Hann söng lag sem Bo Hall, fjórði dómari á föstudaginn, frumflutti á sínum tíma og var frumflytjandinn bara ánægður með Kalla. Kalli flaug í gegnum síuna í þetta skiptið og réttilega. Hann er líklegur til afreka í keppninni og fær spádóminn 1.-3. sæti.
Sessý
Sessý þessi er stór kona og mætti ólétt til leiks í þokkabót. Hún er ekki alslæmur söngvari en ekkert sérstakur heldur. Í þjóðfélagi sem krefst kjörþyngdar mátti sjá það fyrir að hún kæmist ekki langt. Sessý var einn af þremur verstu performurum föstudagskvöldsins og fór réttilega út. Blessý, Sessý.
Jóhanna Vala
Vala, eins og hún er kölluð af okkur sem þekkjum hana, er rokktýpa af skóla Courtney Love. Hún kallar ekki allt ömmu sína, ólíkt þessum, og lét glitta í maga enda hefur hún af nógum maga að taka. Hún reyndi að fara ótroðnar slóðir með flutningi sínum á Nýdanska laginu “Horfðu til himins” og gerði það svo sem en hún endaði utan vegar og villtist af leið (laglegur). Vala féll réttilega úr keppni á föstudaginn en ef ég þekki hana rétt mun henni skjóta upp aftur í einhverju hörðu rokkbandi.
Rannsla
Rannveig er sá keppandi í þessari keppni sem hefur hæst (ég fíla)/(allir fíla)-hlutfall Idol-keppendanna. Ég hef nefnilega nokkuð álit á stelpu miðað við það sem ég hef séð af henni. Hún er vel yfir meðallagi í útliti án þess þó að slá mann gjörsamlega út af laginu. Hún hefur það hins vegar umfram aðra keppendur að það skín af henni ákveðinn klassi. Rannsla fær líka prik fyrir fimmaur sem hún slengdi fram eftir að Simmi hafði bent henni að hún hefði fengið fernu (hrós frá öllum fjórum dómurum). Hún spurði þá: “Mjólkurfernu?” Hún fylgir mínu mottói að segja frekar of marga brandara en fáa. Hún er fínn söngvari en lætur röddina víbra fullmikið (lesandi má búa sér til eigin brandara varðandi víbra-tenginguna). Rannsla lenti í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að vera í botn-þremur á föstudaginn, án þess þó að vera hent út. Það var út í hött en má helst kenna því um að hún fetar meðalveginn og það ber ekki mikið á henni. Ef kosið hefði verið um hverjir ættu að detta út í stað þess hverjir ættu að halda áfram held ég að hún hefði ekki lent í neðstu þremur. Rönnslu er spáð 5.-6. sæti.
Tinna Marína
Óumdeilanlega gyðja keppninnar. Oft hefur hún verið góð en á föstudaginn oozaði hún kynþokka og lífsgleði um gervalla Smáralind og maður sat hálfmáttlaus í sófanum heima. Hún söng líka hörkuvel og heildarútkoman var mjög góð. Það sem helst má finna Tinnu til foráttu lærist af öðrum vettvangi en Idol. Tinna hefur nefnilega áður tekið þátt í Ungfrú Ísland (eða .is) og hún er greinilega með athyglissýki af nokkuð háu stigi. Þá hefur hún sést í myndbandi með “Á móti sól” sem hjálpar henni að sjálfsögðu ekki. Hún ætti þó að ná langt í keppninni að því gefnu að stelpur (sem greiða væntanlega mun fleiri atkvæði en strákar) fái ekki öfundsýkikast og hendi henni út. Tinnu er spáð 1.-3. sæti.
Helgi Rafn
Hjartaknúsarinn Helgi söng sig inn í hjörtu íslenskra ungmeyja þegar hann söng Clapton-slagarann “You look wonderful tonight” sem hann og kærasta hans kalla sitt lag. Miðað við frammistöðuna á föstudaginn er þó ekki hægt að ætla að hann komist langt enda ekki hægt að syngja vellur keppnina út í gegn. Hann var einn af þremur slökustu keppendum og hefði mátt fara út fyrir Sessý án þess að mikið yrði sagt. Hann hangir inni á væmninni og verður forvitnilegt að sjá hvort það endist eða hvort hann kemur með eitthvað ferskt næst. Helga er spáð löku gengi og dettur út í næsta þætti ef ekki verður stór breyting á hans frammistöðu.
Ardís Ólöf
Erftitt er að átta sig á því hvort Ardís (ekki Arndís) er ofdekruð eða óörugg sveitamær. Hún er þó nokkuð lagleg og syngur eins og engill. Eitthvað finnst mér þó vanta upp á að hún meiki það fullkomlega í keppninni og spái ég henni 4. sæti. Ef hún bætir útgeislun við sig gæti hún þó komist hærra. Hún er ekki talin jafnlíkleg til þess að verða fyrir öfundarútkasti og Tinna og gæti því notið góðs af slíku.
Anna Katrín
Svolítið indí-stelpa. Hún er vinaleg með sætt bros en gæti seint talist gella. Hún er hins vegar með magnaða rödd og greinilega ekki að syngja í fyrsta sinn. Bubbi sagði hana vera orðna að þroskuðu sviðdýri sem ekki getur talist slæmt. Anna er mjög viðkunnanleg í útliti og það ásamt röddinni tel ég að muni fleyta henni í 1.-3. sæti. Þess má geta að hún er dóttir sjónvarpskonu sem allir þekkja andlitið á en ég man ekki hvað heitir.
Jón Sigurðsson
Jón er hið svokallaða Wild-Card sem komst inn sem níundi keppandi í eins konar uppreisnarglímu tapara. Jón er kallaður 500-kallinn og hefur einnig verið líkt við Clay Aiken, sem einnig var Wild-Card á sínum tíma en er nú að hefja sigurför um heiminn. Jón er síbrosandi, gerir sitt til þess að vera líflegur á sviði og virkar nokkuð fyndinn og skemmtilegur. Hann er hins vegar ekki með alveg nógu skemmtilega rödd og nokkuð frá því að vera besti söngvarinn í keppninni. Hann er alltaf stífgreiddur og passar sig á að vera alltaf með hárrétt-kasúal-greiðslu. Jón veit þó greinilega hvað hann er að gera því hann var orðinn “vinur stelpnanna” á föstudaginn með tilheyrandi kossum á enni og faðmlögum. Ef þær eru ekki allar á föstu þá er okkar maður að fara að leggja a.m.k. eina. Jón er ekki að spila til að vinna, hann er að spila til að ná sér í kellingar. Annaðhvort það eða hann er hommi. Jóni er spáð 5.-6. sæti.
Ég vil að lokum benda Ella, Þorbirni og öðrum Stuðmannaaðdáendum á það að einn þátturinn verður víst með Stuðmannaþema, þ.e. bara Stuðmannalög. Elli, ég skal taka það upp fyrir þig ef þú verður ekki kominn heim.
<< Home