GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, desember 01, 2003

Að selja köttinn í sekknum

Ég vil byrja á því að óska landsmönnum gleðilegs fullveldisdags. Fyrir 85 árum náðist stærsti áfangi áfangi íslenskrar sjálfstæðisbaráttu þegar Ísland fékk fullveldi. Þetta er mun stærri áfangi en sjálfstæðið nokkurn tímann og alveg ótrúlegt að þessum degi sé ekki gert hærra undir höfði en raun ber vitni. Það er sannkölluð hneisa að hann sé ekki lögbundinn frídagur á meðan 11 trúarlegir dagar eru frídagar sem og verkalýðsdagurinn 1. maí. Það sem er sorglegast við þetta er að krakkar munu aldrei átta sig á mikilvægi þess dags þar sem þeir mæla merkileika daga eftir því hvenær er frí í skólanum. Þar með er foreldrafundur orðinn merkilegri en fullveldisdagurinn, fussum svei. En víkjum að öðru.

Nú nálgast jólin óðfluga og jólagjafainnkaup þar með. Jólabónusar eru að losna úr læðingi, kaupmenn slást um hylli neytenda og ýmislegt er gert til þess að spenna veskin upp og hita segulrönd kreditkortsins.

Nýjasta trendið er að telja fólki trú um að það sé gaman að versla og þá sérstaklega í ákveðnum verslunum frekar en öðrum. Hagkaup gengur lengst í þessum efnum, notar í sínum auglýsingum slagorðin: “Hagkaup, þar sem skemmtilegast er að versla.” Smáralind beitti svipuðum aðferðum þegar hún opnaði. Þá var hún auglýst með slagorðinu: “Smáralind, nýr áfangastaður”. Fólki var talin trú um að þarna væri kominn framandi staður þar sem hægt væri að losna við leiðindi daglegs amsturs og kaupa sig frá áhyggjunum. Til þess að ýta undir þessa ímynd hefur metnaðarfull skemmtidagskrá verið í Vetrargarðinum í Smáralind þar sem skemmtikraftar eins og hinn einelti Stefán Karl og Jóhanna Guðrún hafa troðið upp. Reyndar eru þeir með besta kvikmyndahús landsins sem er líka með frábært laser-show og tilheyrandi reyk. Það finnst mér eiginlega það skemmtilegasta við að fara í bíó. Já, sæll. (©Ásgeir Kolbeins, Popptíví).

Annað trix er að selja manni hluti á algjörlega röngum forsendum. Besta dæmið um þetta eru DVD-mynddiskar. Ég er mikill áhugamaður um kvikmyndir, er stoltur eigandi DVD-spilara og er í kjölfarið orðinn stoltur eigandi þó nokkurra DVD-diska. Það sem ég skil ekki er allt aukaefnið. Það mætti halda að fólk geri ekki annað en að glápa á aukaefnið miðað við hversu mikil áhersla er lögð á það í auglýsingum. Nánast allar nýjar myndir sem koma út á DVD hafa einn eða tvo fylgidiska sneisafulla af sjóðheitu aukaefni. Ég átta mig ekki alveg á því hvort aukaefnið er til þess að trekkja söluna eða bara til þess að gefa seljendum möguleikann á hærra verði. Hvað sem því líður vildi ég helst geta keypt einn disk með myndinni sjálfri eingöngu og svo mega framleiðendur bara troða aukaefninu upp í smáþarmana. Ég sá líka auglýsingu fyrir stuttu fyrir tölvuleikinn Manhunter. Í henni var sagt að ekki væri hægt að sýna brot úr leiknum þar sem hann væri bannaður og svo blóðugur að það varðaði við lög að sýna úr honum í sjónvarpi. Maður nötraði náttúrulega og skalf af löngun. Svona blóðugur leikur getur ekki verið annað en frábær. Já, sæll.

Svo er það eitt trixið sem ég hlæ alltaf að þegar ég sé því beitt. Það er að segja fólki að nýtt kortatímabil sé hafið. Þar með er ekki nema einn og hálfur mánuður þar til reikningarnir boomeranga aftur í hausinn á manni og allt í lagi að eyða eins og maður getur. Ég vil sjá fólk sem þessi rök virka á. Nýtt kortatímabil hefst hjá mér í dag. Kannski maður skelli sér bara í skemmtiferð í Hagkaup, Smáralind og kaupi sér DVD með fullt af aukaefni og svo kannski Manhunter líka. Já, sæll.


Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com