GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

fimmtudagur, desember 25, 2003

Gleðileg jól
Gleðileg jól kæru lesendur. Nú loksins er maður kominn heim eftir óvenju þægilegt ferðalag frá Mílanó til (Minsk, kallinn!) Keflavíkur. Lenti vél Iceland Express á Þorláksmessukvöldi, klukkan 23:50. Tók maður tollinn sinn, skautaði upp í bílinn, blístraði á skrílinn og hélt heim. Veðurguðirnir minntu á sig með blindhríð á Keflavíkurveginum en Flugrútan sér um sína og ók á “full steam” gegnum sviptivinda og skafrenning.

Björn minntist á kúnstina að halda fölsku brosi þegar kemur að því að opna pakkana. “Heyyyyy mikið er þetta sniðugt, get örugglega notað þetta einhvern tíma”
Einhvern tíma og einhvern tíma. Eða ekki. Þessi leikur var mun erfiðari er maður var yngri, enda kröfur manns utan allra velsæmismarka. Í dag er manni slétt sama hvað maður fær svo fremi sem það sé ekki eitthvað algert skran eins og sprittkerti eða eggjabikar. Maður er umfram allt glaður fyrir að geta troðið í sig sem mestu af kræsingum, legið uppí sófa, sötrað jólaöl, maulað konfekt, lesið bækur eða horft á DVD. Jólin eru einmitt kjörtími fyrir DVD myndir. Enginn hringir í mann, ekkert Fólk með Sirrý í sjónvarpinu sem mamma þarf að sjá og engin sól sem skín á skjáinn hjá manni. Allt í góðum gír. Þetta er tíminn til að horfa á langar og sígildar myndir, Godfather þríleikinn, JFK, Das Boot, Casablanca, Chinatown ofl. svo ekki sé minnst á Tailorinn.

Jólin eru líka sá tími sem afgangarnir eru alveg viðbjóðslega góðir. Upphitaður jólamatur er tvímælalaust besti morgunmatur sem völ er á. Dæmigert að vakna klukkan 11, liggja í móki og prumpa í sængina í tvo tíma eða svo á meðan maður les fyrstu 100 blaðsíðurnar í jólabókinni. Síðan veltir maður sér fram úr rúminu,trítlar að ísskápnum, tekur fram afgangana, skóflar á disk, hitar upp sósuna og hleður svo í sig öllu gúmmelaðinu eins og villimaður. Að lokinni máltíð silakeppast maður svo aftur upp í rúm og leggur sig eins feitur selur á sólarströnd. Alger toppur.

Ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, enda garnir farnar að gaula. Þær vilja meira.Við hæfi að óska lesendum gleðilegra jóla, næsti pistill verður á nýju ári svo ég þakka líka fyrir mig árið 2003 og bið alla vel að lifa. Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com