Rannsóknarverkefni Skítsins í Þýskalandi
Við skítapésar höfum auðvitað greint Íslendinga fram og aftur og til þess að finna verðug verkefni þurfum við nú að hefja rannsóknaráætlun á erlendum vettvangi. Rannsóknaráætlun þessi hefst á þremur rannsóknarverkefnum. Um miðjan ágústmánuð mun Guðmundur hefja rannsókn á atferli Dana með tilheyrandi bjórdrykkju og stuttu seinna tekst Björn á við það verðuga verkefni að reyna að kortleggja frönsku þjóðina. En ég mun brjóta ísinn með rannsókn minni á þýska kynstofninum.
Nú í kvöld legg ég af stað til Þýskalands til þess að reyna að fá svar við spurningu sem við höfum öll spurt okkur á einhverjum tímapunkti í lífinu: "Eru Þjóðverjar leiðinlegasta fólk í heimi?". Það hefur jafnan verið tekið sem gefin staðreynd að Þjóðverjar séu þurrasta fólk á jörðinni, mögulega að Svíum undanskildum. Ég mun reyna að svara þessari spurningu eftir bestu getu. Þó þarf vart á það að minnast að til þess að kanna svo þurra þjóð þarf maður að vera þeim mun blautari sjálfur og mun nauðsynleg bjórdrykkja mögulega hafa áhrif á rannsóknina og fréttaflutning af henni. Til þess að ég geti framkvæmt rannsókn mína án þess að Þjóðverjar verði þess varir verð ég dulbúinn sem saklaus þýskunemi hjá hvorki meira né minna en Goethe-stofnuninni.
Ég lendi á München-flugvelli að morgni föstudagsins 2.júlí. Þaðan liggur leiðin í Tyrkjastrætið (Türkenstrasse) þar sem ég mun nýta mér gestrisni hins ágæta Ögmundar F. Peterssonar í þrjá sólarhringa. Þaðan liggur leiðin á heimili þýskrar fjölskyldu, hjá hverri ætlunin er að gista í tvo mánuði. Ég var nú ekki sáttur við þennan ráðahag upphaflega en hef nú ákveðið að taka þessu sem áskorun. Svo veitti það mér nokkurn vonarneista að fjölskylda þessi samanstendur af einstæðri móður og einhverjum börnum hennar, þar af dóttur sem er að ljúka skóla sem ætti að þýða að hún væri 18-20 ára gömul. Þar sem hluti rannsóknar minnar er einnig að kanna þýskt kvenfólk á eins ítarlegan hátt og mögulegt er, verður það kærkomið tækifæri að hafa viðfangsefnið svo stutt innan seilingar.
Þriðji hluti rannsóknar minnar snýr að samanburði á alþjóðlegum samnemendum mínum. Miðað við fyrri rannsóknir mínar á ungum Evrópubúum á sambærilegu tungumálanámskeiði á Ítalíu eru Hollendingar og Danir líklegir til þess að verða skemmtilegir.
Enn er verið að setja upp fjarskiptamiðstöð Skítsins í München svo að ekki er ljóst á þessari stundu hversu oft hægt verður að setja fréttatilkynningar á vefinn en það verður gert jafntítt og aðstæður og tilefni leyfa.
Góðar stundir.
<< Home