GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, nóvember 24, 2003

Gleðileg jól

Í dag er sléttur mánuður til aðfangadags sem markar upphaf jóla, á Íslandi að minnsta kosti. Jólin eru hátíð ljóss og friðar og allt það og eru þau haldin hátíðleg til þess að minnast fæðingu „frelsara vors”, Jesú Krists. Við minnumst þess þegar þrír „vitringar” eltu bjarta stjörnu og fundu ungbarn reifað og lagt í jötu og drógu þá skynsamlegu ályktun að þarna væri þeim frelsari fæddur. Þessa ágætu smásögu eftir guðspjallamanninn Lúkas hlustum við á og fyllumst von um að æðra máttarvald muni ávallt vaka yfir okkur og senda okkur eitt stykki eingetinn strákpjakk þegar syrtir í álinn.

Í seinni tíð hafa hinir veraldlegu þættir þó sett mark sitt æ meira á jólahátíðina og fyrir flesta kaupmenn er þetta besti tími ársins. Fyrir rithöfunda og bókaútgáfur mætti meira að segja ganga svo langt að kalla jólin eina tíma ársins eða því sem næst. Að sjálfsögðu er allra ráða leitað til þess að mjólka jólaspenann og flest finnst mér allt í lagi. Það er fínt að allt verði rauðleitt af jólaskrauti en það sem mér finnst verst við þetta er það að lengja jólatímabilið. Nú er eins og áður segir mánuður til jóla og samt sá ég fyrir um tveimur vikum síðan kókómjólkurfernu sem kenndi mér að segja „Gleðileg jól” á um 10 tungumálum. Ég er fróðleiksfús maður og tók þessum upplýsingum með þökkum en ég set spurningamerki við tímasetninguna. Þarf ég virkilega að kunna að óska fólki gleðilegra jóla á 10 tungumálum í fyrri hluta nóvember? Ýmsar verslanir setja líka upp jólaskraut snemma til þess að fá fólk í jólaandann og missa tökin á buddunni. Á Ítalíu er þetta meira að segja svo slæmt sums staðar að strax 1. nóvember fara jólaskreytingar upp (Ellert, geturðu staðfest þetta?). Ítalir eru reyndar bjánar upp til hópa og er þetta eitt birtingaform bjánaskapar þeirra. Hins vegar finnst mér að Íslendingar eigi að vera betri en svo að toga upphaf jóla langt aftur í haustið til þess eins að trekkja söluna. Mér hefur alltaf fundist jólastemmningin eiga að byrja í desember og miðað við það ætti jólaskraut ekki að fara upp fyrr en 1. desember. Reyndar er kannski betri tímasetning að ræsa jólaskapið við upphaf aðventu (sem er um 4 vikum fyrir aðfangadag). Biskup er á þessari skoðun og þar sem jólin eru að nokkru leyti kristin hátíð verður hans álit að hafa eitthvað vægi í þessu máli.

Annars eru jólin ágætur tími. Jólaljósaflóðið býður skammdeginu byrginn, hið rauðgræna jólaskraut gefur borginni lit og á góðum jólum fáum við snjó sem færir enn frekari birtu í bæinn. Svo hef ég mjög gaman að jólalögum sem byrja væntanlega að heyrast bráðlega og er ég meira að segja svo frægur að eiga hina ágætu safnplötu, „Pottþétt jól”. Jólaprófin eru reyndar umdeild sem gleðigjafi en fríið sem kemur í kjösogið er alltaf jafnvel þegið.

Þegar allt er saman tekið eru jólin ágætistilbreyting frá daglegu amstri. Þegar litið er burt frá gjafastressi og gráðugum kaup(þings)mönnum er lítið slæmt um jólin að segja. Maturinn er góður, þótt útlit sé fyrir að ég fái ekki rjúpuna mína þetta árið, og jafnvel sjónvarpsdagskráin verður þolanleg. Hvað sem trú og trúleysi líður eru jólin heppilegur hálfleikur í löngum íslenskum vetri sem ber að njóta eins og auðið er. Nú er bara að gefa sig barnslegri jólagleðinni á vald og vona að jólasnjórinn sýni sig þetta árið.

Fyrir þá sem vilja komast í jólastemmningun strax bendi ég á jól.is þar sem jólin eru gleðileg allan ársins hring.

Feliz navidad.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com