Beisið er ekki beysið (langa útgáfan)
Það vildi svo til að ég átti erindi á svæði varnarliðsins í Keflavík síðastliðinn laugardag. Ég þurfti nefnilega að taka hið svokallaða GRE-próf, eins og þó nokkrir aðrir úr Háskólanum, og er hvergi hægt að komast í það hérlendis nema í varnarstöðinni. Ég hef aldrei farið vestur yfir Atlantshafið svo að þetta er það næsta sem ég hef komist því að heimsækja Bandaríkin og kynnast bandarískri menningu.
Við mættum á beisið um kl. 8:00 á laugardagsmorguninn. Til þess að komast inn á svæðið þarf að fara í gegnum öryggishlið eins og eðlilegt er. Þar tók hermaður á móti okkur með M-16 riffilinn sinn. Það veitir manni alltaf vissa öryggistilfinningu að vita af hlöðnu skotvopni, sem er hannað til þess að geta stráfellt óvininn, í metra fjarlægð frá manni. Við komumst stóráfallalaust í gegnum hliðið, enginn var skotinn, og þá lá leiðin í A.T. Mahan high school þar sem prófið skyldi tekið. Þar mætti okkur afskaplega vinalegt fólk og andrúmsloftið var mun afslappaðra en maður hefði ætlað. Það létti aðeins á prófstressinu og M-16- skrekknum sem enn lúrði í manni. Svo yljaði það manni líka um hjartaræturnar að sjá bandaríska fánann hangandi uppi á vegg í skólastofunni, maður sér hann aldrei nógu oft. Því næst var komið að því að taka prófið sem var og gert og fer ekki fleiri sögum af því. Að prófi loknu kallaði svo vingjarnlega konan sem sat yfir okkur á unglingspilt sem aðstoðaði hana við að safna saman prófsúrlausnunum. Það var ekki laust við að maður vorkenndi kauða, þetta var örugglega sonur konunnar sem hafði verið neyddur til þess að rífa sig upp á laugardegi til þess að fara með mömmu í vinnuna. Svo var hann nú ekki mjög álitlegur, gekk um með hangandi haus og með hormottu sem hvaða Tékki sem er hefði selt vinstra eistað fyrir.
Að prófi loknu var planið að sjúga í sig eins mikið af bandarískri menningu og mögulegt var. Það fyrsta sem blasti við er út úr prófinu var komið var kirkja (ég ætla að hemja trúarandúð mína í þetta skiptið). Þessi kirkja var reyndar frábrugðin flestum öðrum kirkjum því hún var í senn musterti, moskva og sitthvað fleira. Þetta er nefnilega fjölnota kirkja sem guð, Allah, Visnú og allir þessir gaurar hafa komið sér saman um að reka fyrir hagkvæmnissakir. Hún er því þannig hönnuð að hægt er að breyta hinum ýmsu stillingum, snúa veggjum og annað eftir því hvaða guð planið er að dýrka.
Næst var að sjálfsögðu haldið á hinn margfræga hamborgarastað, Wendy’s. Hvað er meira einkennandi fyrir bandaríska menningu en skyndibiti? Sá biti stóð aldeilis ekki undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans, sem þó voru ekki miklar. Fyrsta vandamálið var það að ekki þykir ástæða til þess að hafa posa til þess að taka á móti greiðslunni. Við Íslendingarnir sem höfum vart séð seðil í mörg herrans ár vorum því tilneydd að finna okkur hraðbanka, sem reyndar var fljótgert. Þá var bara að panta og var það fljótgert, ég pantaði mér Chicken burger combo. Svo fengum við matinn okkar þá kom bjánaskapur kanans í ljós. Ég hafði pantað Chicken burger, eins og áður hefur komið fram, tvö fengu sér Spicy Chicken og einn fékk sér Double burger. Allt þetta kom í nákvæmlega eins umbúðum og aðspurður kvaðst afgreiðslumaðurinn ekki hafa hugmynd um hvað væri hvað. Sama vandamál kom upp varðandi gosið, við vorum tveir sem fengum okkur coke og ein fékk sér diet coke og að sjálfsögðu vissi enginn hvað var hvað. Við þurftum því að beita gömlu góðu smökkunaraðferðinni til þess að komast að því í hvaða glasi diet coke-ið væri nú. Það reyndist svo þrautin þyngri þar sem coke-ið þarna er meira en lítið sérstakt. Ég veit ekki hvort þeir skemma vatnið okkar með því að bæta einhverju út í það eða hvað en eitthvað eru þeir að misskilja.
Það eina góða sem ég fann við beisið er verðið. Kjúklingamáltíðin mín sem var svo sem ekki merkileg kostaði aðeins $ 4,25 sem eru um 350 kr. Svo kannaði ég að sjálfsögðu áfengisverð: Kippa af Carlsberg í gleri kostar um 500 kr. eða um helming af íslensku verði og lítri af vodka um 700 kr. sem er um fimmtungur íslensks verðs! Ég keypti samt ekki neitt af ótta við það að verða skotinn í öryggishliðinu þegar ég reyndi að smygla áfengi út af beisinu.
Það er nokkuð ljóst að ég mæli ekki með beisinu fyrir nokkurn mann miðað við þá takmörkuðu reynslu sem ég fékk á þessum 5 tímum mínum þar nema nauðsyn krefji.
Að lokum vil ég benda fólki á það að ef það vill skrá sig úr þjóðkirkjunni þá er eyðublaðið að finna hérna:
Ég trúi ekki.
<< Home