GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, október 13, 2003

Trúir þú?

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.
Ég trúi á Krist Jesú, hans einkason, Drottin vorn,
sem getinn er af Heilögum Anda,
fæddur af Maríu mey,
píndur undir valdi Pontíusar Pílatusar
krossfestur, dáinn og grafinn,
steig niður til heljar,
reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum,
steig upp til himna,
situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs
og mun koma aftur að dæma lifendur og dauða.
Ég trúi á Heilagan Anda,
heilaga, almenna kirkju,
samfélag heilagra
fyrirgefningu syndanna,
upprisu holdsins og eilíft líf.
Amen


Hversu oft hefur maður ekki logið þessu að fjölda fólks sem hefur á móti logið þessu að manni og enginn skammast sín neitt? Ég trúi nefnilega ekki á þennan guð sem á að vera almáttugur og er reyndar hættur að ljúga því að nokkrum manni við nokkurt tilefni. Það sem mér finnst undarlegast er hversu fáir eru, enn þann dag í dag, tilbúnir að taka undir yfirlýsingar þess efnis að þeir trúi ekki á guð.

Það að vera sannkristinn felur yfirleitt í sér það að vera góður og hafa samúð með sínum minnstu bræðrum. Að sama skapi virðist almenn skynjun á þeim sem segist vera andstæður kristni vera sú að hann sé vondur og skorti samfélagsvitund og skilning á aðstæðum annarra. Út af þessu þora fáir að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að þeir séu alls ekki trúaðir. Því segist fólk ekki vera “mjög trúað” eða eitthvað álíka til þess að fá ekki þennan “vonda” stimpil á sig.

Hræsni þessa “ekki mjög trúaða” fólks birtist svo algjörlega þegar hlegið er að mönnum eins og Gunnari í Krossinum sem predikar afhommun og liðinu á Omega sem styður “heilagan rétt” Ísraelsmanna til landsvæðisins sem þeir búa nú á. Hver, með réttu ráði, getur sagt að Gunnar í Krossinum sé bilaður öfgamaður ef sá hinn sami er skráður í þjóðkirkjuna og fer með trúarjátninguna án þess að blikna? Gunnar er þó að minnsta kosti sjálfum sér samkvæmur, hann trúir á “guð almáttugan” og “orð hans” sem góðir menn færðu í biblíuna. Hinn “ekki mjög trúaði” er bara tækifærissinni sem notar trúna til þess að viðhalda jákvæðri ímynd samborgara sinna.

Það þarf til dæmis ekki að fara lengra en í fyrstu línu trúarjátningarinnar til þess að fá hinn “ekki mjög trúaða” til þess að bakka svolítið. Hver trúir því í dag að guð hafi skapað himin og jörð og hver trúir því að Jesús hafi verið að hoppa milli heims og helju til þess að chilla aftur með lærisveinunum? Biblían er ekki bók sem á að taka trúanlega í einu og öllu, hún er heimspekirit full af dæmisögum og lífsreglum. Hana skal lesa til þess að auka skilning á manninum og heiminum en það skal gert með gagnrýni og víðsýni. Það voru margir mismunandi menn sem skrifuðu hana og þeir voru með mismunandi skoðanir. Það er margt gott í biblíunni, vandinn er bara að velja og hafna. Raunar er grundvallarhugmynd mína um samskipti manna að finna í biblíunni. Það er hin svokallaða Gullna regla (Matteus 7:12) sem segir:

Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.

Svekkelsi mitt á hversu vanþróaður heimurinn er í þessum málum er algjört. Trú er aðalorsök ófriðar í heiminum í dag og ef ekki orsökin þá að minnsta kosti mjög vel notuð til þess að kynda undir ófrið sem til staðar er. Almenn menntun og þekking er víða troðin niður í nafni trúarinnar og fólki er mismunað eftir trú. Meira að segja á hinu upplýsta Íslandi er trúleysingjum mismunað gagnvart trúuðum, þótt mismununin sé ekki mikil. Hún felst í því að skyldugjald til trúfélaga upp á um 5000 krónur á ári er lagt á alla Íslendinga 16 ára og eldri, trúaða og trúlausa. Þetta gjald rennur til trúfélags hvers og eins en hinir trúlausu greiða til Háskóla Íslands í stað trúfélags. Þetta virðist fólki finnast sanngjarnt en þetta er álíka greindarlegt og að skylda alla til að greiða til íþróttafélags og greiða til Háskólans ef þeir vilja ekki styðja neitt ákveðið íþróttafélag. Meðlimir trúfélaga eru að greiða jafnmikið fyrir þjónustu sem þeir þiggja hjá sínu félagi og hinir trúlausu greiða fyrir ekki neitt. Ég vil alls ekki með þessu segja að Háskólinn eigi ekki peningana skilda en þetta er ekki leiðin til þess að afla honum þeirra.

Því segi ég að við eigum að hætta hræsninni og reyna að losa okkur við trúarbrögð eins vel og hægt er. Fyrir þá sem finnst tómlegt að vera trúlausir vil ég benda á að þótt ekki sé trúað á nein yfirnáttúruleg fyrirbæri má vel trúa á önnur fyrirbæri. Ég trúi á sanngirni, heiðarleika og góðvilja í samskiptum manna. Ég trúi því að með þessar hugsjónir að leiðarljósi ásamt hinni ágætu Gullnu reglu megi skapa mun betra þjóðfélag en það sem byggist blindri trú á eitthvað sem engin skynsamleg ástæða er til að ætla að sé til. Hverju trúir þú?


Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com