Einn tvöfaldan gin í tónik án klaka, sítrónu eða áfengisgjalds
Þann 1. október síðastliðinn lækkaði áfengisgjald í Danmörku um 47%. Þetta var gert vegna þess að Danir voru farnir að ferðast í auknum mæli út fyrir Danmörku til þess að kaupa áfengi. Það veldur að sjálfsögðu því að bæði danska ríkið og áfengissalar urðu af miklum tekjum og nú á að snúa þessari þróun við. Nú eiga Danir að borga danska ríkinu fyrir að verða fullir en ekki því þýska eða öðrum ríkjum. Í kjölfarið eru Svíar svo orðnir stressaðir vegna þess að þar er áfengisgjald enn mjög hátt og raunar er áfengisverð út úr búð um 60% hærra í Svíþjóð en dönskum megin við Ermasundið. Því sjá þeir fram á að sænskir drykkjumenn fari að gera það sem danskir kollegar þeirra hafa verið að gera, að ferðast suður á bóginn í áfengisöflun. Því er viðbúið að Svíar lækki áfengisskattinn sinn fljótlega líka. Þá getur maður rétt ímyndað sér hvað Norðmenn hafa miklar áhyggjur af þessu. Þeir hafa lengi glímt við það vandamál að fólk ferðast til Svíþjóðar að kaupa ódýrt áfengi og ekki mun það vandamál minnka þegar/ef Svíar lækka sína drykkjumannatíund. Þannig má sjá fram á það að áfengisverð hrynji í nánustu framtíð á öllum norðurlöndum nema einu, gamla góða Íslandi.
Ísland þarf ekki að glíma við þetta sama “vandamál” að ódýrt áfengi er á næstu grösum. Það er ekki eins og við séum að fara að róa til Færeyja til þess að versla okkur áfengi fyrir helgarfylleríið. Nei, við erum vel varin fyrir ódýru áfengi. Hins vegar spratt upp, eins og eðlilegt er, tal um hvort ekki væri rétt að lækka áfengisgjald jafn mikið hérlendis og hjá okkar fyrrverandi herraþjóð. Þá hlýtur maður að spyrja sig hvað slík lækkun þýðir fyrir gamla góða ríkissjóðinn sem borgar fyrir okkur mjólkina, lambakjötið, besta grænmeti í heimi og fleira sem ríkinu finnst það þurfa að borga fyrir okkur.
Fjárlög fyrir árið 2004 gera ráð fyrir tekjum upp á rúma 7 milljarða vegna áfengisgjaldsins. Ef það yrði lækkað um 47% eins og gert var í Danmörku myndi það þýða um 3,3 milljarða tekjuskerðingu ríkissjóðs. Til þess að bæta upp fyrir þessa tekjuskerðingu yrði væntanlega að hækka önnur gjöld eða skatta. Fyrsta gjaldið sem kemur upp í hugann er að sjálfsögðu tekjuskatturinn sem allir heiðarlegir Íslendingar með yfir 70.000 krónur á mánuði greiða. Hann yrði að fara úr 38,55% í 40,46%, það er að segja að hann yrði að hækka um tæp tvö prósent. Önnur möguleg leið væri að fella niður styrkinn til mjólkurbænda (um 4 milljarðar á ári) en þá væri hægt að lækka áfengisgjaldið og við gætum meira að segja slegið Dönum við og lækkað það um 56% fyrir mjólkurpeninginn.
Því er þetta allt spurning um hvað hinn almenni kjósandi vill. Vill hann borga fyrir áfengið um leið og hann fær útborgað og borgar skattinn sinn, vill hann að fyllibyttur hætti að þurfa að borga mjólkina fyrir Magnús Scheving og alla hina íþróttaálfana eða vill hann bara halda áfram að selja úr sér nýrun til þess að hafa efni á því að drekka lifrina á sér til andskotans?
<< Home