GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, september 22, 2003

Hver er að drekka mjólkina mína?

Íslenskur landbúnaður er, eins og flestir vita, ríkisstyrktur. Flestir beina andúð sinni að sauðfjárbændum og hengja alla sök á þá. Færri átta sig þó á því að mjólkurbúskapur er einnig niðurgreiddur og raunar fer um tvöfalt hærri upphæð í styrki úr ríkissjóði í mjólkurbúskap en sauðfjárrækt. Árið 2003 munu um 4,3 milljarðar fara í styrki til mjólkurbænda og um 2,2 milljarðar í styrki til sauðfjárbænda og hafa þessir styrkir farið hækkandi ár frá ári.

Ef mjólkurstyrknum er deilt niður á framleiddan lítrafjölda fæst það út að um 41 króna/lítra er greidd úr ríkissjóði. Ef aðeins eru skoðaðar hreinu mjólkurtegundirnar (nýmjólk, léttmjólk, fjörmjólk) en ekki aðrar mjólkurvörur má komast að því að meðalskattgreiðandi þarf að drekka um 110 lítra á ári af þessum tegundum til þess að koma út á sléttu miðað vegna styrkjanna sem hann greiðir í gegnum ríkissjóð. Þetta gerir um þriðjung úr lítra á dag. Ég veit ekki um þig lesandi góður en ég drekk ekki svo mikla mjólk. Því er ég að borga mjólk sem einhver annar drekkur og það finnst mér súrt. Hins vegar borða ég meira af jógúrti en meðalmaðurinn svo að sá sem er að drekka mjólkina mína er kannski að borga jógúrtina mína.

Ég er sem sagt á móti þessum landbúnaðarstyrkjum þótt ég kunni að græða á einstökum mjólkurafurðum eins og jógúrtinni. Því fór ég að spá hvað væri hægt að gera við peninga sem þessa ef þeir færu ekki í það að halda uppi óhagkvæmri bændastétt.

Förum aftur í tímann til ársins 1999. Það ár fara 5,2 milljarðar í landbúnaðarstyrki á Íslandi. Sama ár er Stoke selt á rúmar 500 milljónir til íslenskra áhættufjárfesta og Arsenal kaupir Thierry Henry á 1,3 milljarða. Segjum sem svo að í stað þess að styrkja bændur í afdölum hefði íslenska ríkið farið út í fótboltabransann og keypt Stoke og hirt Henry á undan Arsenal. Þá væri búið að eyða tæpum tveimur milljörðum og því rúmlega 3 eftir.

Árið 2000 fara tæpir 5,5 milljarðar í landbúnaðarstyrki. Það ár skulum við stela Luis Figo frá Real Madrid sem er á leiðinni frá Barcelona á 4,5 milljarða. Nægir peningar til þess.

2001: 5,8 milljarðar í styrki. Nú þurfum við að ná í peninginn sem við erum búin að spara frá ’99 og 2000 því nú kaupum við Zinedine Zidane á 6 milljarða en hann var líka á leiðinni til Real.

2002: Nú eru styrkirnir komnir upp í 6,3 milljarða og með þeim og afgangi fyrri ára náum við dýrasta varnarmann heims, Rio Ferdinand, á 3,5 milljarða sem er ósáttur hjá Leeds. Svo höldum við áfram að stríða Real með því að næla okkur í Ronaldo á aðra 3,5 milljarða.

2003: Styrkirnir hækka enn og eru komnir í 6,6 milljarða og nú er líka farið að greiða niður grænmeti fyrir 280 milljónir, alls tæpir 6,9 milljarðar. Nú kaupum við frægasta fótboltamann heims, David Beckham, sem er orðinn of stór fyrir Manchester United og vill komast í alvörulið eins og Íslendingaliðið Stoke. Við borgum 3 milljarða fyrir hann. Loks skulum við pirra rússneska Championship Manager-inn Abrahmovic og kaupa nýstirnið Adrien Mutu á 2 milljarða.

Niðurstaðan er sú að við eigum Stoke með Rio Ferdinand í vörninni, Figo, Zidane og Beckham á miðjunni og Ronaldo, Henry og Mutu frammi, en nei við vildum frekar borga Jóni bónda til að búa áfram úti á landi og leika við meme.

Þessa dagan er Notts County á kúpunni. Nú segi ég að við kaupum Notts County og byggjum upp draumalið sem vinnur meistaradeildina innan fimm ára. Þá þurfum við ekki lengur að binda allar vonir okkar við íslenskt landslið sem drullar á sig út um alla Evrópu.

Hvað segir þú, lesandi góður, viltu koma í Championship Manager með íslensku þjóðinni eða viltu borga jógúrtina mína? Þitt er valið.


Fyrir þá sem vilja kynna sér tölfræðina á bak við þessa grein bendi ég á íslenska fjárlagavefinn og vef mjólkurframleiðenda.



Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com