GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, september 29, 2003

RANGSTAÐA! eða.., jú.

Knattspyrna er ein skemmtilegasta íþrótt sem um getur, hvort sem það er að spila hana eða horfa á sér hæfari menn spila hana. Hún hefur allt: Lipurð, hörku, útsjónarsemi og fautaskap. Persónulega er ég hrifnastur af útsjónarsömum leikmönnum. Miðjumaður sem ber lítið á en gefur góðar sendingar þegar mikið liggur við og vinnur sína vinnu er mín fyrirmynd. Svo er náttúrulega alltaf gaman að framherjum sem með boltatækni og hraða geta niðurlægt 3-4 varnarmenn eins síns liðs. Ef maður hefði bara svoleiðis hæfileika. Ég myndi seint nenna að vera varnarmaður, þeirra hlutverk er bara að skemma sókn andstæðingsins, og ég er ekki nógu stór í markvörðinn. Ég held að ég gæti orðið ágætur dómari og ég hugsa meira að segja að mér myndi ekki finnast það neitt sérstaklega leiðinlegt. Tveir menn eru þó á vellinum sem ég skil ekki að nenni að vera með, það eru línuverðirnir.

Línuverðir eru einu mennirnir á vellinum sem hægt væri að skipta út fyrir vélbúnað og leikurinn myndi bara batna. Þeir eru líka í því hlutverki að 5 sekúndum eftir að þeir taka ákvörðun á sekúndubroti þá munu milljónir manna skoða það í slómó hvort þeir hafi ekki verið að klúðra einhverju. Svo verða stuðningsmenn liðsins sem tapa á ákvörðun línuvarðarins að sjálfsögðu alveg brjálaðir. Þá eru línuverðirnir ekki heppnari en svo að þeir eru nánast í stúkunni sjálfir svo að stuðningsmennirnir geta ausið yfir þá skömmunum up, close and personal. Það er líka þannig töff línuverðir eru álíka algengir og kynþokkafullir kvenkúluvarparar. Línuverðir eru alltaf svona svolítið lost og stressaðir þegar það er zoomað inn á þá, þeir vita sem er að það eru svona 20% líkur á að þeir hafi tekið ranga ákvörðun og að 50% áhorfendanna mun ausa yfir þá hori og eyrnamerg í kjölfarið.

Þeir eru reyndar nokkrir sem taka þann pólinn í hæðina að reyna að virka ákveðnir og hlæja bara að mótmælum. Þeir hinir sömu flagga líka mjög ákveðið svona eins og flöggun sé keppnisgrein á ólympíuleikunum og þeir ætli að reyna að ná lágmarkinu. Svo eru hinn endinn á þeim skala, það eru hlutlausu flaggararnir sem má þó frekar finna í lakari deildum eins og þeirri íslensku. Þeir vita að þegar boltinn fer út af þá verða þeir að lyfta fánanum, til þess er hann nú, en þeir ætla ekki að gera handtaki meira. Það skiptir ekki máli hver á boltann, flaggið fer bara beint upp og menn verða bara að fatta þetta sjálfir.

En við megum ekki vera of vond við línuverðina, eða aðstoðardómarana eins og þeir vilja láta kalla sig. Það geta ekki allir verið hipp og kúl og það þarf alltaf einhver að vera línuvörður alveg eins og það þarf alltaf einhver þrífa klósettin. Ég vona samt þeirra og fótboltans vegna að myndavélar komi fljótlega í stað þeirra. Þá getum við fengið réttar rangstöðuákvarðanir og þeir geta farið aftur á sambýlið og æft sig fyrir ólympíleikana í flöggun.



Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com