GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, október 20, 2003

70 mínútur orðnar lengri en áður

70 mínútur er sprellþáttur sem hefur nú verið í gangi í nokkur ár. Ekki voru allir tilbúnir að viðurkenna skemmtileika þáttanna í upphafi þegar þeir Simmi og Jói stýrðu gleðinni. Undirritaður tók þeim þó snemma opnum örmum og skammaðist sín ekkert fyrir það. Þeir fylgja nefnilega þeirri ágætu grínspeki að segja frekar of marga brandara heldur en of fá og láta allt flakka, fyndið og ófyndið. Síðan bættist Sveppi í hópinn og það þarf ekki að hafa mörg orð um hann enda einn fyndnasti maður Íslands á seinni árum þar á ferð. Auddi Blöndal læddi sér svo inn sem meðstjórnandi í stað Jóa eftir að hafa tekið nokkrar vel heppnaðar faldar myndavélar. Það tríó sem þá var komið var líklega besta 70 mínútna-stjórnandateymi sem verið hefur.

Svo hófust barneignir þeirra félaga og punguðu Simmi og Sveppi út hvor sínum krakkanum í sumar og fóru í kjölsogið í barneignaleyfi. Þá fékk Auddi það erfiða verkefni að stýra þættinum einn. Hann leysti það með því að fá til sín einn gestastjórnanda á hverju kvöldi sem reyndi að vera hress, drekka ógeðisdrykk og standast áskorun. Þessir gestastjórnendur voru margir hverjir fínir, t.d. Bubbi, Gísli Marteinn og Stjáni stuð og svo voru aðrir ekki jafngóðir eins og Fjölnir hrossavinur. Í það heila tókst Audda vel upp með þessa þætti og voru þeir skemmtileg nýbreytni.

Nú er ástandið verra. Nú er Simmi farinn í Idolið og aðalstjórnendurnir tveir, Sveppi og Auddi, að gera nýjan skemmtiþátt (sem heitir Sveppasúpa að því er ég held) ásamt Sigurjóni Kjartanssyni. Það er að sjálfsögðu ekkert nema gott um það að segja fyrir utan það að nú eru komnir afleysingamenn í 70 mínútur sem eru það ófyndnir að George Lopez myndi skammast sín fyrir slíka brandara. Þetta eru þeir Ásgeir Kolbeinsson og Skúli Örn Sigurðsson. Ásgeir þessi er með eins orginal aflitað hár og nokkur maður getur haft og er það mikill hnakki að Svali má fara að passa sig. Hann hefur þann aðalstarfa á popptíví að sjá um pepsi-listann og passar ágætlega inn í það. Hann gæti hins vegar ekki sagt góðan brandara þótt hár hans lægi við. Skúlinn virkar eins og hann gæti verið fyndinn en er það bara því miður ekki. Hann rembist og rembist við það að vera eins og hetjurnar, Auddi og Sveppi, en allt kemur fyrir ekki. Saman mynda þessir tveir sorglegt wannabe-fyndið teymi sem er að klúðra sínu fyrsta og vonandi síðasta tækifæri til þess að hlægja alþjóð. Hefði ekki bara verið betra að fá fólk sem a.m.k. var einhvern tímann fyndið eins og Halla og Ladda eða Spaugstofuna eða eitthvað?

Ég vona að þeir Auddi og Sveppi flýti sér að sulla þessa Sveppasúpu saman svo að maður geti aftur farið að sóa tímanum á skemmtilegan máta. Eins og staðan er núna þá stytta 70 mínútur manni ekki stundirnar heldur hið þveröfuga.

Ég fór á heimasíðu popptíví og sá þá spurninguna: “Hvernig finnst þér Afleysingamennirnir standa sig í 70 mín?” og hlakkaði til að smella á “Illa” en stjórnendur popptíví hafa greinilega áttað sig á því hversu leiðinlegir þeir félagar eru og gefa manni ekki séns á að segja sína sönnu skoðun. Einu möguleikarnir eru: “Frábærlega”, “Rosa vel” og “Vel, enda ekki létt verk”. Fyrir þá sem vilja fá snert af persónuleika afleysingamannanna bendi ég á viðtöl við þá á starfsmannalista popptíví þar sem glögglega má sjá hversu fyndinn Ásgeir heldur að hann sé og hversu miklum misskilningi sú trú hans byggir á. Það er ekki jafnaugljóst hjá Skúla en þó glittir örlítið í það.

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com